:: keipdúnkur atla bollasonar :: | |
:: velkomin :: bollason[hja]gmail.com :: plotusafn (gamalt) :: | |
:: mánudagur, september 27, 2004 :: Bíó:: miðvikudagur, september 22, 2004 :: Sl. laugardagskvöld fór ég á einhverja þá skemmtilegustu tónleika sem ég hef séð. Stórsveit NixNolte, sem leikur búlgarska þjóðlagatónlist, lék á Kaffi Kúltúr. Músíkin var slík að ég gat ekki hamið á mér fæturna og fyrr en varði var ég búinn að dansa sjálfan mig á kaf í svitakóf. Ég hélt þó ótrauður áfram, allt þar til tónleikunum lauk eftir tæplega þriggja klukkustunda spilamennsku. Þá var maður var búinn að heyra öll lögin tvisvar þrisvar, en var alveg sama því þau voru alveg jafngóð í annað og þriðja skiptið. Ég var svo úrvinda eftir þetta að ég fór bara í háttinn fyrir klukkan tvö og hlýtur það að teljast til tíðinda í helgarlíferni mínu. Af þessu tilefni vil ég benda ykkur á að þessi stórskemmtilega sveit spilar í Þjóðleikhúskjallaranum á föstudaginn, en þá eru líka tónleikar í NKJ, djammsessjón hjá NEF, partí hjá Dóra og Jökli, Nordisk Panorama opnun og mjög sennilega einhver háskóladjömm (Ég veit semsagt ekkert hvað ég á að gera):: laugardagur, september 18, 2004 :: Kaffibarinn var meira einsog Burbank Studios heldur en bar við Bergstaðastræti í gærkvöldi. Mér tókst allavega að hitta bæði Juliu Stiles og Forest Whitaker. Verst að maður hefur ekki ennþá hitt á Harrison Ford. Ég stoppaði frekar stutt, fékk aftur þessa tilfinningu þar sem ég var einhvernveginn alveg fullkomlega sáttur og sá enga ástæðu til að halda djamminu áfram. Samt var klukkan bara tvö. Ég var líka búinn að hafa það gott, Grétar fræddi mig um hvað stúdentapólitíkin snérist á Röskvuballi á Hressó þar sem hinar víðfrægu DJ AMMA (DJ ÖMMUR?) þeyttu skífum við ágætis viðtökur eftir að háskólafólkið hafði fengið sér neðan í því. Högni og Jói stóðu fyrir sínu og Orri var eitur feitur að vanda.:: fimmtudagur, september 16, 2004 :: Ég var að velta því fyrir mér hvort það væri hægt að ræða um fíkn þegar fólk hefði óstjórnlega löngun í eitthvað sem ylli því ekki skaða. Ef ég t.d. gæti ekki komist í gegnum daginn án þess að fara í bað, væri það þá fíkn? Eða ef ég gæti ekki þraukað nóttina án þess að sofa með sæng. Eða ef dagurinn væri ónýtur ef ég fengi mér ekki kjötbollur með kartöflum. Þetta væri allt tiltölulega hollt fyrir mig, allavega ekki óhollt eða skemmandi á neinn hátt. Er í þessum tilfellum hægt að tala um fíkn? Og ef ekki, hvað merkir þá eiginlega hugtakið?:: þriðjudagur, september 14, 2004 :: Hvað er bogið við þessa setningu::: mánudagur, september 13, 2004 :: Ég var langt frá því að vera gergisjúkur í morgun þegar ég vaknaði. Þvert á móti því móðir mín var nýkomin heim frá San Francisco og hún hafði í farteski sínu gull, reykelsi og mirru (eða nútíma-hliðstæðu þessara sígildu gjafa). Hún kastaði á mig nokkrum flíkum, en spenntastur var ég þó fyrir 19 ítema pöntun sem ég hafði gert á amazon.com fyrir nokkrum vikum og Mamma var svo góð að smygla inn fyrir mig svo ég slapp við alla tolla, skatta og aðra álagningu. Að undanskildum fyrirlestri niðrí Árnagarði, stuttri viðdvöl á bókhlöðunni og skemmmtilega steiktum fundi niðrí MH hef ég notið ávaxta þessarar sendingar í dag. Þannig vil ég helst eyða dögunum. Við skulum nefnilega hafa hugfast á hverju kvöldi að við erum einum degi nær dauðanum. Eða við skulum sleppa því. Allavega þegar veðrið er svona fallegt.:: sunnudagur, september 12, 2004 :: Takk fyrir partíið í gær krakkar sem héldu partí í gær. Þetta var alvöru bíómyndadæmi - hljómsveit, tugir fólks sem ég var að sjá í fyrsta sinn, gaurar úti í garði að pissa - en samt engin lögga.:: laugardagur, september 11, 2004 :: Ef þið viljið fá að vita nokkurnveginn hvernig SMiLE, plata Brians Wilsons sem átti að koma út 1967 en kemur út eftir tvær vikur hljómar, getið þið smellt hér.:: föstudagur, september 10, 2004 :: Þessi dagur, maður, hann fær mig til að hlæja. Hann fer pottþétt á topp 10 listann. Ég vaknaði um kl. 10 og fékk mér morgunmat. Þá hófst ég handa við að lesa La Celestina til að verða 13. Þá tók ég strætó niður í háskóla og sat frekar feitan tíma um menningarfræði samtímans. Þar koma fram allskyns áhugaverð sjónarhorn - einsog um hvernig háskólar eru farnir að verða háðir fjármagni. Einsog mér varð rætt um fyrir nokkrum dögum síðan, þá verða greinar þar sem praktískur tilgangur ekki algjörlega augljós fyrir barðinu á kapítalismanum. Það eru fáir einstaklingar sem kjósa að læra t.d. bókmenntafræði, svo deildin fær litla peninga. Hinsvegar eru svo margir sem kjósa að læra t.d. viðskiptafræði að upp spretta einkareiknir skólar sem fá greidd skólagjöld plús framlög frá ríkinu, svo þeir geta boðið kennurum betri kjör. Þá flykkjast kennararnir í einkaskólana. En valdahlutföllin milli kennara og nemanda breytast. Sjáið, til þess að nemendur verði ánægðir (og kræki þar með í fleiri nemendur - meiri skólagjöld) verða þeir að fá góðar einkunnir. Til þess að þeir fái góðar einkunnir verða kennararnir að ljá þeim slíkar einkunnir. En laun kennarana eru beinlínis háð ánægju nemendanna, svo þeir eru gjafmildari á einkunnirnar en ella. Þannig verður einkunnabólga og um leið gengisfall á menntun. Þetta er engum til góða. En svo ég snúi mér á ný að deginum sjálfum (ég hefi innbyrt áfengi). Að menningarfræðikúrsinum loknum fór ég inn á Þjóðarbókhlöðu. Þar gældi ég við að lesa, en ákvað í staðinn að hlusta á tónlist Jóhanns Jóhannssonar við leikritið Englabörn. Þá gerði ég mér grein fyrir því að til þess að geta notið tónlistar til fullnustu þarf sterílt umhverfi þar sem ekkert truflar mann og maður getur ekki lagst niður. Annars sofnar maður. Hallandi stóll í tómu herbergi með annars vegar hátölurum og hins vegar heyrnartólum er ídealt. Þá hringdi Orri. Hann var á leið á kaffihús og bauð mér með. Ég þáði það með þökkum. Við ókum í grænni Pöndu niður á Mokka. Þar spjölluðum við mikið saman og brátt bættist í hópinn. Helgi Hrafn, Jói og Gvendur voru brátt komnir og í hönd fóru skemmtilegar umræður, fyrst og fremst um háskólasamfélagið. Þá kom Svala og sótti mig og við horfðum á The Graduate. Fín mynd, en frásagnarmátinn er meira en lítið skrítinn. Endirinn er líka einn sá skrítnasti sem ég hefi séð og skildi mig eftir í mjög furðulegu skapi. Ég sat á klósettinu og hló. Nokkur símtöl og ég var kominn niður á Devitos með góðvini mínum Halldóri. Mikilsverð mál rædd og við færðum okkar nær Kvosinni. Fljótlega sátum við á Café Kósí og drukkum ódýran bjór. Sextán ára stúlka beraði brjóst sín og Dóri áritaði þau. Svo var það Ópus og bjórkvöld MH. Innileg og indæl spjöll við innlimaða innipúka. Runólfur hafði lokið sér af á Kaffi list svo við Högni snérum við og Þorsteinn Kári skutlaði mér (og fleirum) heim. (Þakkir fyrir fögur orð og farið.) Í heimreiðinni beið Ragnheiður Gröndal - sama hversu súrrealískt það kann að hljóma. Þá gaf bróðir minn mér Miðnes og síðan bloggað. Stórkostlegt.:: fimmtudagur, september 09, 2004 :: Þá er maður loks hrokkinn í gang. Farinn að glugga í spænsk 16. aldar leikrit og beitta 21. aldar menntagagnrýni. Sveittur á Hlöðunni. Og svo framvegis.:: þriðjudagur, september 07, 2004 :: Kvikmyndin Ken Park er góð og ég verð að vera ósammála Stígi sem vill meina að hún sé til þess eins fallin að hneyksla. Hér er allt annað uppá teningnum heldur en í hinu hræðilega ömurlega stórslysi Base Moi eða Ríddu mér. Myndin minnir vissulega á Kids, en þetta er svona Suburban Kids (hef ég ekki áður notað þessu samlíkingu í umræðu um einhverja kvikmynd hér á bloggi mínu?) sem fjallar meira um það hversu sikk eldra fólkið er heldur en krakkarnir sjálfir. Ég segi ekki meira en mæli með myndinni fyrir áhugafólk um kvikmyndir.:: sunnudagur, september 05, 2004 :: Rétt neðan við húsið mitt rennur lækur. Við kölluðum hann alltaf skurðinn, því hann rann ofan í skurði sem var grafinn eftir hérumbil öllum Fossvogsdalnum. Skurðinum sjálfum hefur nú verið eytt (lækurinn er enn til staðar) í mínum hluta dalsins en hann er enn til staðar við Fossvogsskóla og austar. Það gefur augaleið að þegar ég var yngri var þessi skurður og lækurinn sem í honum rann uppspretta allskyns ævintýra. Ég var reyndar aldrei neitt fyrir það gefinn að veiða hornsíli í læknum en það var lenska hjá mörgum jafnöldrum mínum. Ég var meira fyrir það að stökkva yfir, gera rannsóknir á stramþunganum með því að láta kannski trégrein fljóta niður eftir læknum o.fl. Á veturna fraus lækurinn og skurðurinn fylltist stundum af snjó. Einar frímínútur í svona sjö átta ára bekk vorum við að fíflast á snævi þöktum skurðinum þegar hjarnið gaf sig og ég sökk ofan í djúpan snjóinn líkt og um kviksyndi væri að ræða. Ég festist í mittishæð. Félagar mínir gerðu heiðarlegar tilraunir til þess að toga mig upp en hvorki gekk né rak. Ég varð logandi hræddur. Kallað var á Trausta húsvörð og með hans aðstoð tókst að losa mig úr klóm skurðsins. En vinstra kuldastígvélið mitt varð hans eign og hefur aldrei sést síðan.:: laugardagur, september 04, 2004 :: Það gerðist dálítið skrítið í gærkvöldi. Ég var á leið heim til Sigga T ásamt Svölu, þegar Snorri (sem átti að vera staddur þar) hringir í mig og tilkynnir mér að Siggi sé bara ekkert heima og hann viti ekkert hvað hann eigi að gera. Pabbi var að skutla okkur Svölu, svo við bara pikkum Snorra upp og látum Pabba skutla okkur í bæinn. Þar setjumst við á uppáhaldsbekkinn minn, sem er annar bekkjanna við hliðina á gömlu Hljómalind, beint á móti Kaffi list. Við súpum þar á bjór í góðu yfirlæti. Þessi bekkur er í raun mun betri en flestir barir því a) þú kemur sjálfur með bjórinn, svo hann kostar 150, en ekki 500-600 b) straumur af fólki þarna framhjá er mjög stríður svo þú hittir fullt af fólki c) þú getur talað við fólkið án þess að öskra eða vera alveg oní eyrunum á því d) það berst yfirleitt alveg ljómandi ágæt tónlist útaf Kaffi list. Gallinn er að veður geta verið vond, og þegar það fór að rigna í gær földum við bjórinn uppí tré og flúðum inná Sirkus. Þar dvöldum við í einn bjór (45 - 60 mín - ég er mjög tjillaður við bjórdrykkju) og héldum yfir á Kaffibarinn. Þar var fullt af fólki og góð hústónlist og góður bjór, í raun mun betri en á Sirkus. Þegar ég hafði verið þar í svona klukkustund var kl. hálf þrjú. Þá var ég einhvernveginn orðinn 100% sáttur við kvöldið og vildi bara fara heim. Venjulega er ég úti til fimm sex, en í gærkvöldi var ég alveg hamingjusamur kl. hálf þrjú og vildi ekki spilla þeirri tilfinningu.:: föstudagur, september 03, 2004 :: Það fer svona nett í taugarnar á mér að þegar ég segi fólki frá því að ég sé að fara í almenna bókmenntafræði þá kemur yfirleitt einhver svipur á fólkið, eða þá einhverskonar kóment, eða einhver líkamshljóð, t.d. pfff eða tjaa, og þar fram eftir götunum. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að nám í bókmenntafræði er ekki praktískt né heldur til þess fallið að fita launaumslagið. Ég fer í háskóla til þess að víkka sjóndeildarhring minn, til þess að öðlast skilning á heiminum í kringum mig, til þess að njóta ávaxta mannanna, listanna, til þess að læra akademísk vinnubrögð, til þess að hafa gaman. Í mínum huga er háskólanám ekki starfsmenntun. Ég hef trú á sjálfum mér, ég trúi því að ég hefði getað komist inn í læknisfræði hefði ég viljað og stefnt að því, ég trúi því að ég geti útskrifast úr lögfræði, eðlisfræði, verkfræði, efnafræði, velflestum tungumálum og svo framvegis; en ég valdi mér að læra bókmenntafræði. Ég mun læra inn á skáldskapinn, og hver segir að raunveruleikinn sé á einhvern hátt mikilvægari en hugarfóstur mannanna. Skáldskapurinn er líkan af raunveruleikanum. Oft á tíðum vill það meiraðsegja verða þannig að raunveruleikinn sé líkan af skáldskapnum. Ég er ánægður með val mitt, þetta er kannski ekki erfiðasta eða gagnlegasta námið í háskólanum - en ölll menntun er af hinu góða og ef mig langar einn daginn til þess að verða verkfræðingur eða læknir þá geri ég það bara. Mér eru allir vegir færir.:: fimmtudagur, september 02, 2004 :: NFMH stóð fyrir bjórkvöldi á Dillon í gærkvöldi. Ég brá mér þangað, enda vil ég meina að sá sem sé eitt sinn MHingur sé MHingur um allan aldur. Húsið var pakkað af glænýjum annars, þriðja og fjórða árs nemum, en minna bar á busum. Ég þekkti hérumbil alla með nafni þarna inni og heilsaði vel flestum, en ég þekkti sárafáa. Urmull af kunningjum, örfáir vinir. Þykir mér þetta til marks um hversu illa heppnaðar tilraunir mínar sl. vetur til þess að kynnast mér yngra fólki voru. Þetta skal þó ekki skilið á þann máta að mér hafi leiðst, eða að ég hafi ekki átt í skemmtilegum eða gefandi samræðum um t.d. Pink Floyd (Finnur Guðmundsson) og hina sígildu spurningu „hvað á blaðið sem ritstjórn Fréttapésa gefur út að heita?“. (Tyrfingur, Guðmundur, Sigurður) Það eina sem ég er að reyna að koma hér til leiðar, er, ég veit það ekki. Kannski bara að mér fannst pinkulítið sérkennilegt að vera staddur á MH-bjórkvöldi en þekkja ekkert svo marga. Annars var ég svo temmilegur í gær að það var fáránlegt.:: miðvikudagur, september 01, 2004 :: Síðustu dagar hafa verið afar góðir. Að morgni 13. ágúst flaug ég út til Hollands til þess að taka þátt í námskeiði, Leadership Training var það kallað. Námskeiðið stóð yfir í tvær vikur. Ég fór þangað í félagi við Halldór Halldórsson og Garp Elísabetarson. Skemmst er frá því að segja að við skemmtum okkur konunglega og reynslan var ómetanleg. Námskeiðið sjálft var hins vegar eitthvað það mesta bull sem ég hef komist í kynni við og þjálfarinn/kennarinn/aðalgæjinn minnti mig á köflum á Patrick Swayze í kvikmyndinni Donnie Darko, en þar lék hann sjálfshjálparprédikarann Jim Cunningham sem brýndi fyrir fólki að óttast ekki, því óttinn væri undirrót þess sem færi úrskeiðis í lífi manns. Það var þó ekki boðskapurinn í Olde Vechte (en það var nafn hússins þar sem námskeiðið fór fram), hann var fegurri: ef við elskum alla, erum við elskuð af öllum og getum þannig skapað betri heim. Þessu var komið til skila m.a. með því að leika lög einsog Power of Love og Miracle of Love í sal fullum af fólki með augun lokuð. Hræðilega væmið og hallærislegt. En krakkarnir voru skemmtilegir, og það var sérstaklega áhugavert og ánægjulegt að ræða við fólk frá austantjaldsríkjunum. Á Íslandi þykir kúl að vera kommúnisti/sósíalisti, en þetta fólk er sko alls ekki sammála því. Ég tel allavega að ég hafi þarna eignast vini sem muni koma sér vel á ferðum mínum um Evrópu í framtíðinni.
|
|
![]()
:: gestir ::
![]() |