:: keipdúnkur atla bollasonar ::

:: velkomin :: bollason[hja]gmail.com :: plotusafn (gamalt) ::
[::..tenglar..::]
:: bolladóttir [>]
:: brissó [>]
:: tobbi túkall [>]
:: pjotr-beikon [>]
:: oddur [>]
:: halastjarnan erla [>]
:: steini teague [>]
:: kalli (aka sverrir) [>]
:: bragi málefnalegi [>]
:: heklurnar [>]
:: sandra sello [>]
:: dagga [>]
:: orri tomasson [>]
:: atli vidar [>]
:: doddeh [>]
:: doktor sindri [>]
:: daily photo [>]
:: ragga sturlada [>]
:: baldur.april.is [>]
:: alma [>]
:: stígur lýgur [>]
:: krummi [>]
:: heilagur hrafn [>]
:: dagar puka [>]
:: the big jko [>]
:: sólveig helgabarn [>]
:: kpt. kata litla [>]
:: sólberg [>]
:: steindór [>]
:: kommóðan [>]
:: biggi [>]
:: frikki [>]
:: herra garðar [>]
:: steinþór helgi [>]
[::..gamalt..::]
12/01/2002 - 01/01/2003 01/01/2003 - 02/01/2003 03/01/2003 - 04/01/2003 04/01/2003 - 05/01/2003 05/01/2003 - 06/01/2003 06/01/2003 - 07/01/2003 07/01/2003 - 08/01/2003 08/01/2003 - 09/01/2003 09/01/2003 - 10/01/2003 10/01/2003 - 11/01/2003 11/01/2003 - 12/01/2003 12/01/2003 - 01/01/2004 01/01/2004 - 02/01/2004 02/01/2004 - 03/01/2004 03/01/2004 - 04/01/2004 04/01/2004 - 05/01/2004 05/01/2004 - 06/01/2004 06/01/2004 - 07/01/2004 07/01/2004 - 08/01/2004 08/01/2004 - 09/01/2004 09/01/2004 - 10/01/2004 10/01/2004 - 11/01/2004 11/01/2004 - 12/01/2004 12/01/2004 - 01/01/2005 01/01/2005 - 02/01/2005 02/01/2005 - 03/01/2005 03/01/2005 - 04/01/2005 04/01/2005 - 05/01/2005 05/01/2005 - 06/01/2005 06/01/2005 - 07/01/2005 07/01/2005 - 08/01/2005 08/01/2005 - 09/01/2005 09/01/2005 - 10/01/2005 10/01/2005 - 11/01/2005 11/01/2005 - 12/01/2005 12/01/2005 - 01/01/2006 01/01/2006 - 02/01/2006 02/01/2006 - 03/01/2006 03/01/2006 - 04/01/2006 04/01/2006 - 05/01/2006 05/01/2006 - 06/01/2006 06/01/2006 - 07/01/2006 11/01/2006 - 12/01/2006 12/01/2006 - 01/01/2007 01/01/2007 - 02/01/2007 02/01/2007 - 03/01/2007 03/01/2007 - 04/01/2007 04/01/2007 - 05/01/2007 05/01/2007 - 06/01/2007 06/01/2007 - 07/01/2007 07/01/2007 - 08/01/2007 10/01/2007 - 11/01/2007 11/01/2007 - 12/01/2007 12/01/2007 - 01/01/2008 01/01/2008 - 02/01/2008 02/01/2008 - 03/01/2008 03/01/2008 - 04/01/2008 04/01/2008 - 05/01/2008 05/01/2008 - 06/01/2008 06/01/2008 - 07/01/2008 08/01/2008 - 09/01/2008 09/01/2008 - 10/01/2008 01/01/2009 - 02/01/2009 02/01/2009 - 03/01/2009 04/01/2009 - 05/01/2009 12/01/2009 - 01/01/2010

:: mánudagur, september 27, 2004 ::

Bíó
Mér finnst gaman að fara í bíó, þó ég forðist yfirleitt Hollywood afþreyingu einsog heitan eldinn. (Með undantekningum þó). Á einni viku hef ég séð þrjár bandarískar kvikmyndir í fullri lengd, tvær íslenskar heimildamyndir, eina íslenska stuttmynd, þrjátíu evrópskar stuttmyndir, eina bandaríska heimildamynd og þrjár evrópskar heimildamyndir. Á morgun ætla ég að reyna að sjá fimmtán evrópskar stuttmyndir og eina heimildamynd í fullri lengd. Samt hafði ég alveg tíma til þess að fara út bæði kvöld helgarinnar og gorða bóðan mat (ég hef þetta svona) og njóta veðurblíðunnar. Nám hefur þó nokkuð liðið fyrir þetta menningarlega brjálæði - en við verðum að verðleggja hlutina rétt.
Margrét Magnúsdóttir er kona færslunnar en hún flutti til München árið 2000 og hefur búið þar síðan. Hún hefur komið til Íslands nokkuð oft síðan þó heldur hafi dregið úr tíðni heimsóknanna upp á síðkastið. Sumarið 2001 fór ég að heimsækja hana til München ásamt sjö vinum mínum að heimsækja hana. Það var ógleymanleg ferð fyrir margar sakir. Síðan á fimmtudag hefur Magga verið stödd hér á landi og af því tilefni fer ég út að borða í kvöld í félagi við helling af gömlum vinum. Það verður örugglega mjög skemmtilegt.

Platan
Yes: Fragile

:: Atli 18:57 [+] :: ::
...
:: miðvikudagur, september 22, 2004 ::
Sl. laugardagskvöld fór ég á einhverja þá skemmtilegustu tónleika sem ég hef séð. Stórsveit NixNolte, sem leikur búlgarska þjóðlagatónlist, lék á Kaffi Kúltúr. Músíkin var slík að ég gat ekki hamið á mér fæturna og fyrr en varði var ég búinn að dansa sjálfan mig á kaf í svitakóf. Ég hélt þó ótrauður áfram, allt þar til tónleikunum lauk eftir tæplega þriggja klukkustunda spilamennsku. Þá var maður var búinn að heyra öll lögin tvisvar þrisvar, en var alveg sama því þau voru alveg jafngóð í annað og þriðja skiptið. Ég var svo úrvinda eftir þetta að ég fór bara í háttinn fyrir klukkan tvö og hlýtur það að teljast til tíðinda í helgarlíferni mínu. Af þessu tilefni vil ég benda ykkur á að þessi stórskemmtilega sveit spilar í Þjóðleikhúskjallaranum á föstudaginn, en þá eru líka tónleikar í NKJ, djammsessjón hjá NEF, partí hjá Dóra og Jökli, Nordisk Panorama opnun og mjög sennilega einhver háskóladjömm (Ég veit semsagt ekkert hvað ég á að gera)
•••
Í gær fór ég að sjá Spiderman 2 á sérstöku verkfallstilboði í Regnboganum – 300 kall. Því sá ég sko ekki eftir enda fyrsta flokks afþreying þar á ferðinni. Ef þú hefur ekki séð hana skaltu nýta þér þetta einstaka tilboð. Svo ekki sé minnst á 800 krónurnar sem þú þarft aðeins að borga til þess að geta séð 112 myndir á Nordisk Panorama núna um helgina og fram í næstu viku. (Er þetta blogg að verða að einhverskonar auglýsingabæklingi? Já, að vissu leyti, en ég auglýsi einungis þá atburði sem mér þykja áhugaverðir og tel að væri auðgandi fyrir lesendur þessa bloggs að vera viðstaddir. Ég er í raun andlegur ráðgjafi lesendanna – og um leið andlegur markaðsstjóri, eða auglýsingastjóri.)
•••
Hugsið um þetta: Nýnasisti og Nína systir.

Plötur dagsins í dag og dagsins í gær einvörðungu
Chris Clark: Clarence Park
Ratatat: Ratatat
The Microphones: The Glow Pt. 2

:: Atli 20:43 [+] :: ::
...
:: laugardagur, september 18, 2004 ::
Kaffibarinn var meira einsog Burbank Studios heldur en bar við Bergstaðastræti í gærkvöldi. Mér tókst allavega að hitta bæði Juliu Stiles og Forest Whitaker. Verst að maður hefur ekki ennþá hitt á Harrison Ford. Ég stoppaði frekar stutt, fékk aftur þessa tilfinningu þar sem ég var einhvernveginn alveg fullkomlega sáttur og sá enga ástæðu til að halda djamminu áfram. Samt var klukkan bara tvö. Ég var líka búinn að hafa það gott, Grétar fræddi mig um hvað stúdentapólitíkin snérist á Röskvuballi á Hressó þar sem hinar víðfrægu DJ AMMA (DJ ÖMMUR?) þeyttu skífum við ágætis viðtökur eftir að háskólafólkið hafði fengið sér neðan í því. Högni og Jói stóðu fyrir sínu og Orri var eitur feitur að vanda.

Plötur síðustu daga
má finna í kómentum tveim færslum neðar.

:: Atli 17:03 [+] :: ::
...
:: fimmtudagur, september 16, 2004 ::
Ég var að velta því fyrir mér hvort það væri hægt að ræða um fíkn þegar fólk hefði óstjórnlega löngun í eitthvað sem ylli því ekki skaða. Ef ég t.d. gæti ekki komist í gegnum daginn án þess að fara í bað, væri það þá fíkn? Eða ef ég gæti ekki þraukað nóttina án þess að sofa með sæng. Eða ef dagurinn væri ónýtur ef ég fengi mér ekki kjötbollur með kartöflum. Þetta væri allt tiltölulega hollt fyrir mig, allavega ekki óhollt eða skemmandi á neinn hátt. Er í þessum tilfellum hægt að tala um fíkn? Og ef ekki, hvað merkir þá eiginlega hugtakið?

:: Atli 13:25 [+] :: ::
...
:: þriðjudagur, september 14, 2004 ::
Hvað er bogið við þessa setningu:
Ég ætla bara að bera harm minn í hljóði.
(Bókmenntafræðinemar, vinsamlegast ekki svara, ekki strax allavega).

:: Atli 21:34 [+] :: ::
...
:: mánudagur, september 13, 2004 ::
Ég var langt frá því að vera gergisjúkur í morgun þegar ég vaknaði. Þvert á móti því móðir mín var nýkomin heim frá San Francisco og hún hafði í farteski sínu gull, reykelsi og mirru (eða nútíma-hliðstæðu þessara sígildu gjafa). Hún kastaði á mig nokkrum flíkum, en spenntastur var ég þó fyrir 19 ítema pöntun sem ég hafði gert á amazon.com fyrir nokkrum vikum og Mamma var svo góð að smygla inn fyrir mig svo ég slapp við alla tolla, skatta og aðra álagningu. Að undanskildum fyrirlestri niðrí Árnagarði, stuttri viðdvöl á bókhlöðunni og skemmmtilega steiktum fundi niðrí MH hef ég notið ávaxta þessarar sendingar í dag. Þannig vil ég helst eyða dögunum. Við skulum nefnilega hafa hugfast á hverju kvöldi að við erum einum degi nær dauðanum. Eða við skulum sleppa því. Allavega þegar veðrið er svona fallegt.

Plötur
The Books: The Lemon of Pink
Miles Davis: In a Silent Way
The Velvet Underground: The Velvet Underground
Television: Marquee Moon
John Lennon/Yoko Ono: Double Fantasy
Pink Floyd: Relics

:: Atli 22:03 [+] :: ::
...
:: sunnudagur, september 12, 2004 ::
Takk fyrir partíið í gær krakkar sem héldu partí í gær. Þetta var alvöru bíómyndadæmi - hljómsveit, tugir fólks sem ég var að sjá í fyrsta sinn, gaurar úti í garði að pissa - en samt engin lögga.
Af gefnu tilefni bendi ég líka á að ég er upptekinn öll sunnudagskvöld næstu mánuðina. James Bond á Skjáeinum er eitthvað sem maður lætur ekki framhjá sér fara. From Iceland With Love.

Plötur
múm: Summer Make Good
Liars: They Threw Us All In a Trench and Stuck a Monument on Top.
Unicorns: WWCOHWWG?
Nick Drake: Bryter Layter; Pink Moon

:: Atli 17:19 [+] :: ::
...
:: laugardagur, september 11, 2004 ::
Ef þið viljið fá að vita nokkurnveginn hvernig SMiLE, plata Brians Wilsons sem átti að koma út 1967 en kemur út eftir tvær vikur hljómar, getið þið smellt hér.
•••
Gærdagurinn fór á annan hátt en ég hafði ætlað. Eða, ég hafði í rauninni ekki ætlað honum neitt - en þegar stúdentaráð bauð nýnemum upp á pylsur og bjór kl. 13 þá varð hann skyndilega ráðinn. Eftir nokkra dvöl í tjaldi við aðalbygginguna hélt ég ásamt Kára Hólmari heim til starfsystur minnar Þórhildar og bauð hún upp á veigar. Síðan vorum við reknir þaðan út því hún ætlaði að halda áfram með B.A. ritgerðina sína (?). Það var leiðindaveður svo við bönkuðum uppá hjá Maríu Rún sem hafði þjálfað ræðuliðið okkar í grunnskóla. Hún var ekki síður gestrisin og þegar við héldum þaðan blundaði mjöður í maganum á okkur. Ég vil óska henni til hamingju, en hún sigraði í gær í kjöri til formanns Orators, nemendafélags lögfræðinema. Þá var klukkan farin að ganga fimm. Við gengum niður í 12 tóna og fylgdumst með ensku nýbylgjurokksveitinni I'm Being Good troða upp. Þeir heilluðu mig alls ekki. En 12 tónar voru gestrisnir að vanda og buðu uppá rósa- og rauðvín. Eftir mjög áhugavert spjall við Einar Sonic um rokklífið hélt ég aftur niður á Háskólasvæðið í jörfagleði Fróða, félags sagnfræðinema. (Bókmenntafræðinemar eiga ekkert nemendafélag einsog er.) Þar hitti ég Helga Hrafn og við gæddum okkur á pizzum og bjór. Þar sátum við svo klukkustundum skipti áður en við fórum í félagi við Úlf nokkurn Einarsson niður á Apótekið og vorum erfiðir og með stæla. Það var alveg fyndið. Við vorum komnir í dálítið sérstakt skap og fórum að rífa okkur við dyraverðina á Pravda, sem tóku því ekki vel og ég endaði t.d. í götunni og er með sár á olnboga því til sönnunar. Síðan tók við bæjarferð til kl. 3 í nótt, sem gerir 14 klukkustunda djamm - slíkt hlýtur að teljast gott. Rosa gaman.

Plötur
Sufjan Stevens: ...Michigan...
Beach Boys: Pet Sounds

:: Atli 20:23 [+] :: ::
...
:: föstudagur, september 10, 2004 ::
Þessi dagur, maður, hann fær mig til að hlæja. Hann fer pottþétt á topp 10 listann. Ég vaknaði um kl. 10 og fékk mér morgunmat. Þá hófst ég handa við að lesa La Celestina til að verða 13. Þá tók ég strætó niður í háskóla og sat frekar feitan tíma um menningarfræði samtímans. Þar koma fram allskyns áhugaverð sjónarhorn - einsog um hvernig háskólar eru farnir að verða háðir fjármagni. Einsog mér varð rætt um fyrir nokkrum dögum síðan, þá verða greinar þar sem praktískur tilgangur ekki algjörlega augljós fyrir barðinu á kapítalismanum. Það eru fáir einstaklingar sem kjósa að læra t.d. bókmenntafræði, svo deildin fær litla peninga. Hinsvegar eru svo margir sem kjósa að læra t.d. viðskiptafræði að upp spretta einkareiknir skólar sem fá greidd skólagjöld plús framlög frá ríkinu, svo þeir geta boðið kennurum betri kjör. Þá flykkjast kennararnir í einkaskólana. En valdahlutföllin milli kennara og nemanda breytast. Sjáið, til þess að nemendur verði ánægðir (og kræki þar með í fleiri nemendur - meiri skólagjöld) verða þeir að fá góðar einkunnir. Til þess að þeir fái góðar einkunnir verða kennararnir að ljá þeim slíkar einkunnir. En laun kennarana eru beinlínis háð ánægju nemendanna, svo þeir eru gjafmildari á einkunnirnar en ella. Þannig verður einkunnabólga og um leið gengisfall á menntun. Þetta er engum til góða. En svo ég snúi mér á ný að deginum sjálfum (ég hefi innbyrt áfengi). Að menningarfræðikúrsinum loknum fór ég inn á Þjóðarbókhlöðu. Þar gældi ég við að lesa, en ákvað í staðinn að hlusta á tónlist Jóhanns Jóhannssonar við leikritið Englabörn. Þá gerði ég mér grein fyrir því að til þess að geta notið tónlistar til fullnustu þarf sterílt umhverfi þar sem ekkert truflar mann og maður getur ekki lagst niður. Annars sofnar maður. Hallandi stóll í tómu herbergi með annars vegar hátölurum og hins vegar heyrnartólum er ídealt. Þá hringdi Orri. Hann var á leið á kaffihús og bauð mér með. Ég þáði það með þökkum. Við ókum í grænni Pöndu niður á Mokka. Þar spjölluðum við mikið saman og brátt bættist í hópinn. Helgi Hrafn, Jói og Gvendur voru brátt komnir og í hönd fóru skemmtilegar umræður, fyrst og fremst um háskólasamfélagið. Þá kom Svala og sótti mig og við horfðum á The Graduate. Fín mynd, en frásagnarmátinn er meira en lítið skrítinn. Endirinn er líka einn sá skrítnasti sem ég hefi séð og skildi mig eftir í mjög furðulegu skapi. Ég sat á klósettinu og hló. Nokkur símtöl og ég var kominn niður á Devitos með góðvini mínum Halldóri. Mikilsverð mál rædd og við færðum okkar nær Kvosinni. Fljótlega sátum við á Café Kósí og drukkum ódýran bjór. Sextán ára stúlka beraði brjóst sín og Dóri áritaði þau. Svo var það Ópus og bjórkvöld MH. Innileg og indæl spjöll við innlimaða innipúka. Runólfur hafði lokið sér af á Kaffi list svo við Högni snérum við og Þorsteinn Kári skutlaði mér (og fleirum) heim. (Þakkir fyrir fögur orð og farið.) Í heimreiðinni beið Ragnheiður Gröndal - sama hversu súrrealískt það kann að hljóma. Þá gaf bróðir minn mér Miðnes og síðan bloggað. Stórkostlegt.

Plötur
Sufjan Stevens: ...Michigan...
Air: Talkie Walkie
Keith Fullerton Whitman: Playthroughs
Bohren & Der Club of Gore: Black Earth
King Crimson: Discipline

:: Atli 01:44 [+] :: ::
...
:: fimmtudagur, september 09, 2004 ::
Þá er maður loks hrokkinn í gang. Farinn að glugga í spænsk 16. aldar leikrit og beitta 21. aldar menntagagnrýni. Sveittur á Hlöðunni. Og svo framvegis.

:: Atli 01:42 [+] :: ::
...
:: þriðjudagur, september 07, 2004 ::
Kvikmyndin Ken Park er góð og ég verð að vera ósammála Stígi sem vill meina að hún sé til þess eins fallin að hneyksla. Hér er allt annað uppá teningnum heldur en í hinu hræðilega ömurlega stórslysi Base Moi eða Ríddu mér. Myndin minnir vissulega á Kids, en þetta er svona Suburban Kids (hef ég ekki áður notað þessu samlíkingu í umræðu um einhverja kvikmynd hér á bloggi mínu?) sem fjallar meira um það hversu sikk eldra fólkið er heldur en krakkarnir sjálfir. Ég segi ekki meira en mæli með myndinni fyrir áhugafólk um kvikmyndir.
•••
Fyrsti dagurinn í HÍ var ómerkilegur þar eð Guðni Elísson dreifði einungis kennsluáætlun og ræddi á 40 mín. En kennsluáætlunin leit hinsvegar alveg drulluvel út.

Plötur
Wu-Tang Clan: Enter The Wu-Tang (36 Chambers)
Joy Division: Unknown Pleasures
Sufjan Stevens: Michigan
Beastie Boys: Ill Communication
Mugison: Lonely Mountain
My Bloody Valentine: Loveless
King Crimson: Starless and Bible Black
Eno: Another Green World

:: Atli 01:23 [+] :: ::
...
:: sunnudagur, september 05, 2004 ::
Rétt neðan við húsið mitt rennur lækur. Við kölluðum hann alltaf skurðinn, því hann rann ofan í skurði sem var grafinn eftir hérumbil öllum Fossvogsdalnum. Skurðinum sjálfum hefur nú verið eytt (lækurinn er enn til staðar) í mínum hluta dalsins en hann er enn til staðar við Fossvogsskóla og austar. Það gefur augaleið að þegar ég var yngri var þessi skurður og lækurinn sem í honum rann uppspretta allskyns ævintýra. Ég var reyndar aldrei neitt fyrir það gefinn að veiða hornsíli í læknum en það var lenska hjá mörgum jafnöldrum mínum. Ég var meira fyrir það að stökkva yfir, gera rannsóknir á stramþunganum með því að láta kannski trégrein fljóta niður eftir læknum o.fl. Á veturna fraus lækurinn og skurðurinn fylltist stundum af snjó. Einar frímínútur í svona sjö átta ára bekk vorum við að fíflast á snævi þöktum skurðinum þegar hjarnið gaf sig og ég sökk ofan í djúpan snjóinn líkt og um kviksyndi væri að ræða. Ég festist í mittishæð. Félagar mínir gerðu heiðarlegar tilraunir til þess að toga mig upp en hvorki gekk né rak. Ég varð logandi hræddur. Kallað var á Trausta húsvörð og með hans aðstoð tókst að losa mig úr klóm skurðsins. En vinstra kuldastígvélið mitt varð hans eign og hefur aldrei sést síðan.
Fyrir nokkrum dögum varð mér hugsað til lækjarins og það rann upp fyrir mér að ég hef aldrei vitað hvar honum lýkur. Svo ég fór í stutta könnunarferð og ætlaði að komast að því. Ég gekk meðfram læknum nokkra stund. Sólin skein og það var heitt, eins heitt og getur orðið á haustdegi. Ég fór inn á svæði skógræktarinnar því þangað lá rennslið. Þegar ég hafði gengið þar í nokkrar mínútur fannst mér ég kominn á stað sem ég hef aldrei áður séð. Þetta var mjög útlandalegt, gróðurinn var svo mikill og manni fannst maður langt frá mannabyggðum, þó svo að það væri innan við 5 mínútna labb heim. Þetta minnti mig á eitthvað sem ég átti erfitt með að setja fingur á, en svo virtist sem um væri að ræða minningu frá því að ég bjó í Bandaríkjunum 1987 - 1989. Sú minning fólst í því að ég hafði greinilega farið í göngutúr í burt frá mannabyggðum. Gróðurinn ágerðist og landið varð sífellt erfiðara yfirferðar. Eftir drjúga stund kem ég að gömlum lestarteinum sem eru ekki lengur í notkun. Ég man að þegar ég horfði niður eftir teinunum steig tíbrá upp af þeim. Óviss um hvort þetta væri raunveruleg minning sagði ég Pabba frá þessu. Hann kvaðst muna eftir þessu, við höfðum farið í umræddan göngutúr, sennilega ásamt Sverri bróður mínum. Sverrir hirti eldgamlan járnnagla úr teinunum. Hér er sennilega um að ræða þá elstu minningu sem ég hef fundið í huga mínum.
En af læknum er það að segja að hann rennur inn á einkalóð við sérkennilegt einbýlishús (húsið sem ekið er inn að með því að beygja til hægri þegar ekið er norður eftir Kringlumýrarbraut skömmu fyrir göngubrúna yfir að Nauthólsvík og Fossvogskirkjugarði) sem er girt af með gaddavír. Ég stóð ekki í því að svindla mér þar í gegn svo það er enn ráðgáta hvar rennslinu lýkur eða hverfur ofan í jörðina eða skólprör.

:: Atli 16:40 [+] :: ::
...
:: laugardagur, september 04, 2004 ::
Það gerðist dálítið skrítið í gærkvöldi. Ég var á leið heim til Sigga T ásamt Svölu, þegar Snorri (sem átti að vera staddur þar) hringir í mig og tilkynnir mér að Siggi sé bara ekkert heima og hann viti ekkert hvað hann eigi að gera. Pabbi var að skutla okkur Svölu, svo við bara pikkum Snorra upp og látum Pabba skutla okkur í bæinn. Þar setjumst við á uppáhaldsbekkinn minn, sem er annar bekkjanna við hliðina á gömlu Hljómalind, beint á móti Kaffi list. Við súpum þar á bjór í góðu yfirlæti. Þessi bekkur er í raun mun betri en flestir barir því a) þú kemur sjálfur með bjórinn, svo hann kostar 150, en ekki 500-600 b) straumur af fólki þarna framhjá er mjög stríður svo þú hittir fullt af fólki c) þú getur talað við fólkið án þess að öskra eða vera alveg oní eyrunum á því d) það berst yfirleitt alveg ljómandi ágæt tónlist útaf Kaffi list. Gallinn er að veður geta verið vond, og þegar það fór að rigna í gær földum við bjórinn uppí tré og flúðum inná Sirkus. Þar dvöldum við í einn bjór (45 - 60 mín - ég er mjög tjillaður við bjórdrykkju) og héldum yfir á Kaffibarinn. Þar var fullt af fólki og góð hústónlist og góður bjór, í raun mun betri en á Sirkus. Þegar ég hafði verið þar í svona klukkustund var kl. hálf þrjú. Þá var ég einhvernveginn orðinn 100% sáttur við kvöldið og vildi bara fara heim. Venjulega er ég úti til fimm sex, en í gærkvöldi var ég alveg hamingjusamur kl. hálf þrjú og vildi ekki spilla þeirri tilfinningu.
Í dag var ég svo nokkuð menningarlegur og fjölskylduvænn - fór með fjölskyldunni á tvær listsýningar, síðan að sjá kvikmyndina Dís og síðan út að borða á Eldsmiðjunni. Mér fannst Dís mjög góð og myndi gefa henni 8/10. Ég var líka hrifinn af bókinni þvert á skoðanir margra vina minna (sérstaklega karlvina). Ég tel að þar sé um að ræða einhverskonar snobb gegn þesskonar bókmenntum. Annaðhvort það eða ég er bara geðveikur sökker fyrir hversdagslegum sögum úr lífshlaupi ungs venjulegs fólks. Allavega, mér fannst myndin einfaldlega mjög skemmtileg áhorfs og náði vel að tengjast karakterunum. Ég tel líka að hún hafi verið mjög raunsæisleg, jafnvel óþægilega fyrir þá sem eru í sömu sporum og Dís sjálf. Þess má geta að Dís og besta vinkona henna Blær sitja á ofangreindum bekk í einni senu myndarinnar. Hann er greinilega í tísku. Það helsta sem ég saknaði úr kvikmyndinni var frekari tíundun á fortíð og bakgrunn Dísar og kannski fleiri senur úr hennar daglega prívatlífi, svona í mat heima hjá M&P og í einhverju veseni á djamminu.
Í kvöld er ég að pæla í að sjá Byltuna á Grandrokk.

:: Atli 20:23 [+] :: ::
...
:: föstudagur, september 03, 2004 ::
Það fer svona nett í taugarnar á mér að þegar ég segi fólki frá því að ég sé að fara í almenna bókmenntafræði þá kemur yfirleitt einhver svipur á fólkið, eða þá einhverskonar kóment, eða einhver líkamshljóð, t.d. pfff eða tjaa, og þar fram eftir götunum. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að nám í bókmenntafræði er ekki praktískt né heldur til þess fallið að fita launaumslagið. Ég fer í háskóla til þess að víkka sjóndeildarhring minn, til þess að öðlast skilning á heiminum í kringum mig, til þess að njóta ávaxta mannanna, listanna, til þess að læra akademísk vinnubrögð, til þess að hafa gaman. Í mínum huga er háskólanám ekki starfsmenntun. Ég hef trú á sjálfum mér, ég trúi því að ég hefði getað komist inn í læknisfræði hefði ég viljað og stefnt að því, ég trúi því að ég geti útskrifast úr lögfræði, eðlisfræði, verkfræði, efnafræði, velflestum tungumálum og svo framvegis; en ég valdi mér að læra bókmenntafræði. Ég mun læra inn á skáldskapinn, og hver segir að raunveruleikinn sé á einhvern hátt mikilvægari en hugarfóstur mannanna. Skáldskapurinn er líkan af raunveruleikanum. Oft á tíðum vill það meiraðsegja verða þannig að raunveruleikinn sé líkan af skáldskapnum. Ég er ánægður með val mitt, þetta er kannski ekki erfiðasta eða gagnlegasta námið í háskólanum - en ölll menntun er af hinu góða og ef mig langar einn daginn til þess að verða verkfræðingur eða læknir þá geri ég það bara. Mér eru allir vegir færir.

Plötur
Slowblow: Slowblow
Eno: Another Green World
Sufjan Stevens: Greetings From Michigan
Herbie Hancock: Maiden Voyage
J-Live: All of the Above
The History of Rock, Vol. 9

:: Atli 11:37 [+] :: ::
...
:: fimmtudagur, september 02, 2004 ::
NFMH stóð fyrir bjórkvöldi á Dillon í gærkvöldi. Ég brá mér þangað, enda vil ég meina að sá sem sé eitt sinn MHingur sé MHingur um allan aldur. Húsið var pakkað af glænýjum annars, þriðja og fjórða árs nemum, en minna bar á busum. Ég þekkti hérumbil alla með nafni þarna inni og heilsaði vel flestum, en ég þekkti sárafáa. Urmull af kunningjum, örfáir vinir. Þykir mér þetta til marks um hversu illa heppnaðar tilraunir mínar sl. vetur til þess að kynnast mér yngra fólki voru. Þetta skal þó ekki skilið á þann máta að mér hafi leiðst, eða að ég hafi ekki átt í skemmtilegum eða gefandi samræðum um t.d. Pink Floyd (Finnur Guðmundsson) og hina sígildu spurningu „hvað á blaðið sem ritstjórn Fréttapésa gefur út að heita?“. (Tyrfingur, Guðmundur, Sigurður) Það eina sem ég er að reyna að koma hér til leiðar, er, ég veit það ekki. Kannski bara að mér fannst pinkulítið sérkennilegt að vera staddur á MH-bjórkvöldi en þekkja ekkert svo marga. Annars var ég svo temmilegur í gær að það var fáránlegt.
•••
Hvaða sköll er að hylja fyrirsögn bloggsins míns? Hvernig losna ég við þetta?

:: Atli 08:58 [+] :: ::
...
:: miðvikudagur, september 01, 2004 ::
Síðustu dagar hafa verið afar góðir. Að morgni 13. ágúst flaug ég út til Hollands til þess að taka þátt í námskeiði, Leadership Training var það kallað. Námskeiðið stóð yfir í tvær vikur. Ég fór þangað í félagi við Halldór Halldórsson og Garp Elísabetarson. Skemmst er frá því að segja að við skemmtum okkur konunglega og reynslan var ómetanleg. Námskeiðið sjálft var hins vegar eitthvað það mesta bull sem ég hef komist í kynni við og þjálfarinn/kennarinn/aðalgæjinn minnti mig á köflum á Patrick Swayze í kvikmyndinni Donnie Darko, en þar lék hann sjálfshjálparprédikarann Jim Cunningham sem brýndi fyrir fólki að óttast ekki, því óttinn væri undirrót þess sem færi úrskeiðis í lífi manns. Það var þó ekki boðskapurinn í Olde Vechte (en það var nafn hússins þar sem námskeiðið fór fram), hann var fegurri: ef við elskum alla, erum við elskuð af öllum og getum þannig skapað betri heim. Þessu var komið til skila m.a. með því að leika lög einsog Power of Love og Miracle of Love í sal fullum af fólki með augun lokuð. Hræðilega væmið og hallærislegt. En krakkarnir voru skemmtilegir, og það var sérstaklega áhugavert og ánægjulegt að ræða við fólk frá austantjaldsríkjunum. Á Íslandi þykir kúl að vera kommúnisti/sósíalisti, en þetta fólk er sko alls ekki sammála því. Ég tel allavega að ég hafi þarna eignast vini sem muni koma sér vel á ferðum mínum um Evrópu í framtíðinni.
•••
Sama dag og ég snéri heim frá Hollandi, sl. laugardag, þá fór ég að sjá James Brown troða upp í Höllinni. Það var mikið sjóv, minnti mann á köflum á Las Vegas (sérkennilegt að tónleikarnir hafi minnt mig á eitthvað sem ég hef aldrei séð...), en fönkið var að sjálfsögðu til staðar, og karlinn í þrumustuði. Hápunkturinn hefur verið endirinn, um 15 mínútna útgáfa af Sex Machine. Á þessum tónleikum hitti ég félaga minn til margra ára, Kára Hólmar Ragnarsson, en einsog kunnugum er kunnugt þá hefur hann alið manninn á Kúbu í sumar. Kári er rauðskeggjaður orðinn, en hann sýndi mér þó þann dónaskap að klippa á sér hárið, sem var víst orðið ansi glæsilegt um miðjan ágústmánuð. Við fylgdumst að í miðbæ Reykjavíkur, ásamt Orra Jökulssyni, eftir stutt stopp heima hjá mér, þar sem Kári bauð upp á kúbanskar veigar og ég upp á enskt gin. Byssan fær þakkir fyrir að skutla okkur í bæinn. Við röltum milli staða og snérum á ný í 108 um kl. 5:30 að morgninum. Ágætis kvöld, enda alltaf gaman að hitta vini sína á ný.
•••
Sunnudeginum eyddi ég að hluta til í Árbæjarsafni, ásamt Svölu og fjölskyldu minni. Þar var áhugaverð sýning um líf Reykvíkinga á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Um kvöldið fór ég á stórgóða tónleika í Bæjarbíói í Hafnarfirði, sem er einn skemmtilegasti salur landsins. Hljómsveitirnar múm og Slowblow léku sínar melankólísku stemmur fyrir fullan sal fólks. Slowblow áttu í einhverjum erfiðleikum með sig, virkuðu barasta illa æfð og voru alls ekki þétt. En sjarminn sem svífur yfir vötnum á nýjustu plötu þeirra var til staðar svo ég var ekki alls ósáttur við keipdúnk þar. múm voru öllu betri og sýndu það og sönnuðu að það er ein besta sveit Íslands (ef ekki sú besta). Ég hafði ekkert hlustað á nýju plötuna þeirra, en þeim tókst að sannfæra mig um að kaupa hana á leiðinni út, í glæsilegri viðhafnarútgáfu.
•••
Síðastliðin tvö kvöld hef ég svo farið í kvikmyndahús, í bæði skiptin að sjá myndir á bandarískum indí dögum í Háskólabíói. Coffee & Cigarettes varð fyrri til, sérkennileg mynd, eða myndir, þar sam skyggnst er í inní allt að því súrrealísk samtöl milli frægra einstaklinga á kaffihúsum. Ég mæli með henni. Svo Capturing the Friedmans, heimildarmynd um fjölskyldu sem var sökuð um misnotkun á börnum. Hún er nær öll byggð á heimaupptökum eins fjölskyldumeðlimarins frá þeim tíma þegar málið átti sér stað, svo maður fær upplausn fjölskyldunnar og spennuna sem ríkti á heimilinu beint í æð. Ekki beinlínis þægileg áhorfs en geysilega áhugaverð.
•••
Ég hef ekki nám við Háskóla Íslands fyrr en nk. mánudag, svo þetta slæma veður sem hefur einkennt vikuna framan af hefur verið einkar gagnlegt. Ég hef getað húkið heima og hlustað á þann aragrúa af tónlist sem ég hef ekki enn kynnt mér nægjanlega, t.a.m. þær plötur sem ég festi kaup á í Hollandi, tíu talsins, og svo aðrar sem ég hef keypt síðustu mánuði, en hafa einhverra hluta vegna orðið útundan í sirkúlasjóninnni. Einnig er ég með nokkurt magn af músík í láni sem ég þarf að komast almennilega yfir. Áhugasömum er bent á að um miðjan septembermánuð fæ ég svo sendingu að vestan með einum 18 plötum og einum DVD-diski. Já, svo virðist sem ég sé að verða geðveikur.
•••
Þetta er fyrsta bloggfærsla mín svo vikum skiptir. Þetta sumar hefur verið mér gott, ég hef skemmt mér konunglega og þó engin undur og stórmerki hafi beinlínis átt sér stað er ég mjög hamingjusamur. Veturinn sem er framundan er óráðin gáta, en ég vonast til þess að láta af letinni sem einkenndi menntaskólaár mín og fari að gera eitthvað af viti. Sköpun er efst á dagskrá, þá helst í tónlist. Málið er nefnilega að ef ég ætla að meika það þarf ég að fara að flýta mér. Damon Albarn var 23 þegar Leisure kom út. Julian Casablancas var 23 þegar Is This It kom út. Michael Jordan var númer 23. Ég verð orðinn 23 áður en ég veit af.

Plötur síðustu daga
múm: Summer Make Good
Slowblow: Slowblow
Brian Eno: Another Green World
Beastie Boys: Paul’s Boutique, Ill Communication
King Crimson: Larks’ Tongues in Aspic, Starless and Bible Black, Discipline
Joy Division: Unknown Pleasures
Sufjan Stevens: Greetings from Michigan, the Great Lake State
Sigur Rós: Ba Ba Ti Ki Di Do
Herbie Hancock: Maiden Voyage
µ-Ziq: Lunatic Harness
Nick Drake: Bryter Layter
Mike Oldfield: Tubular Bells
ELO: Out of the Blue

:: Atli 16:01 [+] :: ::
...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?
:: gestir ::
Weblog Commenting by HaloScan.com