:: keipdúnkur atla bollasonar ::

:: velkomin :: bollason[hja]gmail.com :: plotusafn (gamalt) ::
[::..tenglar..::]
:: bolladóttir [>]
:: brissó [>]
:: tobbi túkall [>]
:: pjotr-beikon [>]
:: oddur [>]
:: halastjarnan erla [>]
:: steini teague [>]
:: kalli (aka sverrir) [>]
:: bragi málefnalegi [>]
:: heklurnar [>]
:: sandra sello [>]
:: dagga [>]
:: orri tomasson [>]
:: atli vidar [>]
:: doddeh [>]
:: doktor sindri [>]
:: daily photo [>]
:: ragga sturlada [>]
:: baldur.april.is [>]
:: alma [>]
:: stígur lýgur [>]
:: krummi [>]
:: heilagur hrafn [>]
:: dagar puka [>]
:: the big jko [>]
:: sólveig helgabarn [>]
:: kpt. kata litla [>]
:: sólberg [>]
:: steindór [>]
:: kommóðan [>]
:: biggi [>]
:: frikki [>]
:: herra garðar [>]
:: steinþór helgi [>]
[::..gamalt..::]
12/01/2002 - 01/01/2003 01/01/2003 - 02/01/2003 03/01/2003 - 04/01/2003 04/01/2003 - 05/01/2003 05/01/2003 - 06/01/2003 06/01/2003 - 07/01/2003 07/01/2003 - 08/01/2003 08/01/2003 - 09/01/2003 09/01/2003 - 10/01/2003 10/01/2003 - 11/01/2003 11/01/2003 - 12/01/2003 12/01/2003 - 01/01/2004 01/01/2004 - 02/01/2004 02/01/2004 - 03/01/2004 03/01/2004 - 04/01/2004 04/01/2004 - 05/01/2004 05/01/2004 - 06/01/2004 06/01/2004 - 07/01/2004 07/01/2004 - 08/01/2004 08/01/2004 - 09/01/2004 09/01/2004 - 10/01/2004 10/01/2004 - 11/01/2004 11/01/2004 - 12/01/2004 12/01/2004 - 01/01/2005 01/01/2005 - 02/01/2005 02/01/2005 - 03/01/2005 03/01/2005 - 04/01/2005 04/01/2005 - 05/01/2005 05/01/2005 - 06/01/2005 06/01/2005 - 07/01/2005 07/01/2005 - 08/01/2005 08/01/2005 - 09/01/2005 09/01/2005 - 10/01/2005 10/01/2005 - 11/01/2005 11/01/2005 - 12/01/2005 12/01/2005 - 01/01/2006 01/01/2006 - 02/01/2006 02/01/2006 - 03/01/2006 03/01/2006 - 04/01/2006 04/01/2006 - 05/01/2006 05/01/2006 - 06/01/2006 06/01/2006 - 07/01/2006 11/01/2006 - 12/01/2006 12/01/2006 - 01/01/2007 01/01/2007 - 02/01/2007 02/01/2007 - 03/01/2007 03/01/2007 - 04/01/2007 04/01/2007 - 05/01/2007 05/01/2007 - 06/01/2007 06/01/2007 - 07/01/2007 07/01/2007 - 08/01/2007 10/01/2007 - 11/01/2007 11/01/2007 - 12/01/2007 12/01/2007 - 01/01/2008 01/01/2008 - 02/01/2008 02/01/2008 - 03/01/2008 03/01/2008 - 04/01/2008 04/01/2008 - 05/01/2008 05/01/2008 - 06/01/2008 06/01/2008 - 07/01/2008 08/01/2008 - 09/01/2008 09/01/2008 - 10/01/2008 01/01/2009 - 02/01/2009 02/01/2009 - 03/01/2009 04/01/2009 - 05/01/2009 12/01/2009 - 01/01/2010

:: laugardagur, apríl 30, 2005 ::

Sólin skín, sumarið er komið - og ég þarf að ljúka ritgerð fyrir mánudaginn. En ég er ráðagóður. Ég er búinn að opna gluggann í tölvuherberginu upp á gátt, draga alveg frá, hækka í tónlistinni og setja upp sólgleraugu.
The Boy Least Likely To á fóninum og þar á eftir hin últimata vorplata Fallegir ósigrar með Andhéra.

:: Atli 14:56 [+] :: ::
...
Það er svo mikið af góðum bloggum þarna úti að ég er að fríka. Þó að margir séu hættir og það hafi dálítið lægt frá því að bólan stóð sem hæst hér um árið, hafa gæðin bara aukist þeim mun meira. Ég þarf að búa mér til nýjan bloggrúnt, er ennþá að tékka á bloggum sem ekkert gerist á og eru hundleiðinleg, bara af gömlum vana. Og svo þarf ég að fara að hafa meira quality control hjá sjálfum mér (sbr. þessi færsla).

:: Atli 13:57 [+] :: ::
...
:: miðvikudagur, apríl 27, 2005 ::
Sex persónur í leit að höfundi eftir Luigi Pirandello. Besta leikrit sem ég hef lesið. Það jafnast fátt á við það að fá gæsahúð - bókstaflega - við lestur bókmennta.

:: Atli 23:20 [+] :: ::
...
Sannleikurinn sári

Fyrsti þáttur

Klukkan er fjögur á sunnudagseftirmiðdegi og ATLI situr við tölvuna. Síminn hringir.
ATLI: „Halló?“
STELPA SEM ER MEÐ ATLA Í MENNINGARTÍMARITUM: „Hæ! Heyrðu, veist þú hvenær á að skila ritgerðinni í menningartímaritum?“
ATLI: „Já. Á morgun.“
STELPA SEM ER MEÐ ATLA Í MENNINGARTÍMARITUM: „...ertu ekki að grínast?“

Annar þáttur

Klukkan er fjögur á þriðjudagseftirmiðdegi og ATLI er á Þjóðarbókhlöðunni.
ÖNNUR STELPA SEM ER MEÐ ATLA Í MENNINGARTÍMARITUM: „Hæ!“
ATLI: „Hæ.“
ÖNNUR STELPA SEM ER MEÐ ATLA Í MENNINGARTÍMARITUM: „Veist þú nokkuð hvenær á að skila ritgerðinni í menningartímaritum?“
ATLI: „Já. Í gær.“
ÖNNUR STELPA SEM ER MEÐ ATLA Í MENNINGARTÍMARITUM: „...?“

:: Atli 01:10 [+] :: ::
...
:: þriðjudagur, apríl 26, 2005 ::
Ég skal glaður játa að ég átti alls ekki von á viðtökunum sem ég fékk við færslunni sem ég ritaði í gær. Þetta kom mér skemmtlega á óvart. Hún virðist hafa snert við fólki og er það vel. Ég fékk ekki þessa tilfinningu sem maður fær stundum þegar manni finnst maður vera að gera eitthvað gott, svona „þetta er snilld“-tilfinningu, svo ég tel fremur að umfjölllunarefnið en stíllinn hafi hreyft við fólki. Ég held það hafi verið Ágústínus Árelíus kirkjufaðir sem vakti máls á því að þeir sem gráta hvað mest á harmleikjum eru þær sem þekkja best aðstæðurnar sem þær sjá á sviðinu - og það eru einnig þeir sem njóta þeirra helst. Sama hlýtur að hafa gilt um frásögnina mína, lesendur keipdúnksins hafa fundið í henni einhverja samsvörun, einhvern þráð sem togaði í hjarta þeirra.

Færslan snart Jón Örn það djúpt að hann skoraði á mig að gera aðgengileg lög með fyrstu hljómsveitinni sem ég var í, ásamt fyrrnefndum Atla Kristófer og Mása - Blowboys - en hún starfaði á árunum 1996 - 1998. Ég útbjó mp3 skjal sem lesendur keipdúnksins geta halað niður en í skjali þessu er að finna allt höfundarverk hljómsveitarinnar, alls fimm mínútur og sextán sekúndur. Athygli vekur að formálinn er lengsta lagið eða 1:12. Það er einnig eina lagið sem hefur að bera eitthvað innspilað, ekki bara söng og sömpl. Eftir að hljómsveitin hætti að starfa var lagið „Speis beibs“ lengt (svokallað „xtended mix“) og „Boobiecracker“ endurhljóðblandað. Útgáfurnar sem eru hér eru þó hinar upprunalegu.

Trakklist:

1. Intro
2. Speis beibs
3. Don't mess with me!
4. Münd
5. Bolla
6. Boobiecracker
7. Chinese cartoon
8. Ungur pungur

Persónulega finnst mér „Münd“ og „Chinese Cartoon“ vera bestu lögin. Sveitin samdi fleiri lög sem aldrei voru fest á band, t.a.m. „French fisherman“ og „Blowboys, the song“. Ég verð nú að játa að þegar ég hugsa tilbaka finnst mér nokkuð áhugavert að ellefu ára gamlir drengir hafi gert þessi lög, og þá á ég aðallega við tæknilegu hliðina fremur en lagasmíðarnar sjálfar. Einnig er textinn við „Ungur pungur“ áhugaverður, því hann er óheyrilega dónalegur og grefur undan færslu sem ég ritaði fyrir stuttu um klámfengnar stelpur úti trampólíninu mínu. Kemst þó varla í hálfkvisti við lagið „Stundum“ sem hljómsveitin Techniggaz flutti. Sú sveit varð til úr rústum Blowboys (ég og Atli Kr., mögulega Addi litli) og hélt áfram á svipaðri braut, þó öll vinnsla hafi verið ögn fagmannlegri.

Og fyrir nördana þá er áskorun í gangi: Sá sem getur fyrstur allra borið kennsl á öll sömplin (alls átta talsins, sjö trommulúpur og einn effekt) hlýtur ríkuleg verðlaun. Þetta er nokkuð erfitt, en viðráðanlegt engu að síður.

:: Atli 19:30 [+] :: ::
...
:: mánudagur, apríl 25, 2005 ::
Svala vakti máls á því um daginn að íslenskun enska orðsins „surrealism,“ „súrrealismi,“ henti fyrir tilviljun einkar vel, því súrrealismi er jú einhverskonar súr realismi. Súrt raunsæi væri auðvitað réttara, en færi á mis við raunverulega merkingu orðsins og tengsl þess við alþjóðlega orðið. Góðar vinkonur mínar gera alltaf ákveðin mistök við íslenskan framburð enska orðsins „absurd“. Ég hef þó aldrei fyrir því að leiðrétta þær, því „absúrt“ með áherslu á t-ið virðist nær merkingu orðsins á íslenskri tungu heldur en ef d-ið yrði ofan á.

Þessi formáli er tilkominn vegna þess að aðfaranótt sunnudags var að nokkru súr-realísk. Til þess að ég geti þó skýrt hana út að fullu (raunar mun mér aldrei takast það, heldur aðeins að liltu leyti) þá þarf að hafa annan formála, þar sem ég fer u.þ.b. tíu ár aftur í tímann.

Á árunum sem ég var ca. tíu, ellefu og tólf ára átti ég tvo bestu vini. Þetta voru bestu vinir mínir í öllum heiminum og líf okkar hverfðist að stóru leyti um hvorn annan. Við vorum saman daglega, gistum saman nokkrum sinnum í mánuði og eyddum vitaskuld stærstum hluta skóladagsins saman, enda bekkjarbræður allir. Þessir drengir hétu, og heita enn, Atli Kristófer og Mási. Eitt helsta uppátæki okkar var að setjast niður við tölvuna mína, stilla upp hljóðnema, smella á upptöku og bulla síðan sem mest við máttum. Við klipptum þessi sessjón síðan niður í viðráðanlega lengd, og einangruðum allskyns brandara og hlægileg hljóð sem urðu til. Þessar tilraunir leiddu síðar til stofnunar fyrstu hljómsveitar sem ég var í, en hún hét Blowboys. Lögin voru einföld, en alveg frábær. Um var að ræða einhvern einn frasa sem var sunginn yfir trommutakt sem var samplaður, oft úr Prodigy lögum, Aphex Twin eða einhverju drum'n'bassi. Úr þessu urðu til frábær lög, þó ekkert þeirra teygði sig langt framyfir 30 sekúndna markið.
Tölvuleikir áttu hug okkar allan, en oftar en ekki enduðum við þó að því að spila þá einföldustu sem við komumst í, t.d. Tron '96, svipaðan og LaserBeam og BOOM, sem var Bomberman með karakterum úr DOOM. Stórskemmtilegt. Mig minnir að ég hafi að mestu haldið Marathon fyrir sjálfan mig á þessum árum, enda vanmetinn leikur.
Árin liðu allavega, og við skemmtum okkur konunglega. Þetta var að vissu leyti gullöld æsku minnar, tíminn sem ég á alltaf eftir að muna og jafnvel einangra. Ég man ekkert sérstaklega mikið úr æsku minni fyrir þennan tíma, nema stök minningarbrot.
En undir lok tólf ára bekkjar og við sumarið milli grunnskóla og gagnfræðaskóla gerðist eitthvað. Sambandið slitnaði, einhverjir töldu sig of svala fyrir aðra með tilheyrandi ókurteisi og vanvirðingu. Eftir eitt ár í gagnfræðaskóla var Mási fluttur burt og hinir höfðu ekki fyrir því að hafa samband við hann, og hann ekki við þá. Ég og Atli vorum ennþá vinir en fjarlægðumst hratt. Höfðum þó þekkst síðan í sex ára bekk og bjuggum að því.
Gagnfræðaskólanum lauk, menntaskólinn tók við og við Atli hittumst eingöngu af tilviljun. Ég hitti aldrei Mása, lenti með honum í strætó í örfá skipti, og í nokkur þeirra þorði ég ekki einusinni að gefa mig fram við hann.

Á laugardaginn fór ég í tvítugsafmæli til stráks sem var með mér í Réttó. Þar voru fleiri Rétthyltingar sem er yfirleitt gaman að hitta. Títtnefndur Atli Kristófer var þar og eftir umtalsverða bolludrykkju spurði ég hann ölreifur hvort hann stefndi niður í bæ. Hann sagðist ekki ætla þangað, svo ég, í nostalgíukasti, stakk upp á því að við færum heim til mín að hlusta á Blowboys lög.
Á leiðinni heim til mín gældum við við þá hugsun að hafa samband við Mása og fá hann með okkur í lið. Einsog áður sagði hef ég varla yrt á hann sl. sex ár, og Atli hafði ekki einusinni hitt hann. Við mundum heimanúmerið hjá honum (ótrúlegt) en þar sem klukkan var farin að ganga þrjú afréðum við að reyna að hafa upp á gemsanúmerinu hans þegar heim kæmi. Það gekk eftir og Atli tók upp símann og ég hlustaði ákafur.

„Atli?“ svaraði Mási.
„Já, þetta er sko Atli Ká.“
„Ég veit“ sagði hann einsog ekkert væri sjálfsagðara.
„Blessaður maður! Hvað segirðu? Ég er hérna heima hjá Atla Bolla og...“
„...eruð þið að fara að hlusta á Blowboys lög og eitthvað?“ Hann hlýtur að lesa hugsanir, hugsaði ég.
„Já! Nákvæmlega...heyrðu...við erum hérna með Önnu Dröfn og við getum komið að sækja þig, hvar ertu?“

Fáum mínútum síðar vorum við lagðir af stað. Hann kom upp í bílinn og við vorum þrír í sama rými í fyrsta sinn síðan snemma í áttunda bekk. Drengirnir sem ég var með nær daglega í þrjú ár. Við gátum ekki gert annað en að hlæja. Við settumst inn í tölvuherbergi og hlustuðum á Blowboys lög, skjalfesta brandara og fleira. Hláturinn tók völdin algjörlega og við vorum allir meðvitaðir um að þetta væri einsog atriði úr bíómynd, eitthvað sem gerðist ekki í veruleikanum. Enda hafði Mási orð á því þegar hálfur bjór sullaðist yfir gólfið í tölvuherberginu að það hefði eiginlega verið nauðsynlegt, svona til að kippa okkur aðeins niður á jörðina.
Við tylltum okkur í stofuna, rifjuðum upp gamla tíma, spurðum fregna, og klukkan var farin að ganga sex að morgni þegar þeir yfirgáfu húsið mitt. Sólin var komin upp og ég öfundaði þá af því að geta gengið heim í þessu veðri. Bíómyndinni var að ljúka, en við höfðum komist að því að enn þann dag í dag eigum við heilmikið sameiginlegt, og við Mási sennilega meira en við áttum nokkurntímann. Það er gott að gengið hafi verið frá þessum lausu endum. Það er gott að mér finnst ég eiga einum góðum vin meira heldur en fyrir helgi. Það er gott.

:: Atli 10:00 [+] :: ::
...
:: föstudagur, apríl 22, 2005 ::
Nokkur mál verða til umræðu í þessari færslu:
1. Yfirstandandi „ritdeila“
2. Plötur dagsins
3. Ritgerðaskrif
4. Sumardagurinn fyrsti

Í fyrsta lagi er það óljós ritdeila mín við Jón Örn. Hún komst aldrei á flug og sannast þar með hið fornkveðna að ekki er hægt að 'starta' ritdeilu nema eitthvað tilefni liggi til grundvallar. Einnig hef ég grun um að velunnurum keipdunksins hafi leiðst þetta sérkennilega þóf um hárið á mér. Mér hálfleiddist það líka, en hugsa að Jón Örn sé fínn gaur þrátt fyrir það, enda vinstrimaður. Ég læt kappann vita þegar ég panta mér tíma hjá félaga Jóni Atla.

Í öðru lagi barst mér áhugavert kóment: „hvar eru plötur dagsins ? ég er byrjaður að sakna tónlistarinnar hér -barn | 04.22.05 - 7:42 pm |“ Áður en ég bregst við vil ég hvetja ykkur til þess að skrifa undir nafni í kómentakerfið. Ég veit að flestir gera það en það er óþolandi að lesa aðfinnslur eða hrós frá Anonymous eða Lesanda o.s.frv. Bara svona upp á framtíðina, Barn. Þessari réttmætu spurningu er auðvelt að svara. Plötur dagsins hafa ekki verið áberandi upp á síðkastið vegna þess að hérumbil einu plöturnar sem ég hef komist í að hlusta á eru plöturnar sem ég keypti í New York. Þær voru einsog áður sagði 49 talsins og það hefur verið nokkuð verk að komast í gegnum bunkann, og enn hafa ca. tíu þeirra ekki ratað undir geislann eða nálina. Ég get þó glatt þig með því að ég er að undirbúa pistil um hvort sé vænlegra að kaupa vínylplötur eða geisladiska, og ég mun sennilega rita talsvert ítarlega úttekt á plötunum 49 sem ég keypti einhverntímann eftir próf. Í framhjáhlaupi má geta þess að ég lýk prófum og ritgerðaskilum annan maí, en ég verð einmitt tvítugur þann dag.

Í þriðja lagi er ég ekki búinn að vera nógu duglegur við að skrifa ritgerðir, var t.a.m. fjóra daga að koma mér til þess að byrja á þeirri sem ég er að skrifa núna (og ég er varla búinn að skrifa staf). Vona bara að ríkulegur undirbúningur skili sér í fljótlegri skrifum.

Í fjórða lagi ætla ég að segja ykkur frá því hvað var gaman hjá mér í gær, sumardaginn fyrsta. Við Svala sváfum duglega út, höfðum bæði verið á smá djammi kvöldinu áður. Hún dreif sig heim en ég hélt áfram að lesa Fólkið í kjallaranum í annað sinn og skrifa hjá mér. Ég komst yfir svona hundrað bls. áður en allskyns gestir fóru að kíkja í heimsókn. Gestunum fylgdu veitingar: bland í poka, pönnukökur, rjómaterta og að lokum hamborgarhryggur í kvöldmat. Gluggaði aðeins í bókina en entist ekki lengi. Áður en ég vissi af var ég kominn út á göngustíg á hlaupahjóli með Svölu á línuskautum. Við fetuðum okkur í vestur, stoppuðum við í Nauthólsvík og héldum síðan í Læknagarð þar sem við sóttum Sólveigu. Saman héldum við þrjú í bæinn og settumst inn á hið geysi huggulega kaffihús Kaffi Hljómalind. Þar er ekki reykt og stemmningin minnir fremur á stemmninguna í stofunni heima hjá einhverjum, heldur en almannavettvang. Svo er það auðvitað non-profit sem þýðir að allir peningar sem koma inn umfram kostnað eru gefnir til góðgerðamála. Ef Hljómalind næði sér í vínveitingaleyfi myndi ég sennilega ekki fara neitt annað. Við sátum allavega þarna í góðu yfirlæti fram yfir lokun áður en haldið var heim á leið. Þegar ég lagðist í rúmið var ég hæstánægður með að sumarið væri komið, og mér fannst einsog ég væri að segja sjálfum mér satt.

Plata færslunnar
Joy Division: Closer

:: Atli 19:50 [+] :: ::
...
:: fimmtudagur, apríl 21, 2005 ::
Gaman að sjá að Flogsmenn bíði spenntir eftir næsta skrefi í hármálinu. Ég skoðaði þetta blogg aðeins betur áðan og mér virðist að þarna sé á ferðinni skemmtilegt blogg með pólitísku ívafi. Annars er það ekkert á dagskrá hjá mér að fara í klippingu, nema bara til snyrtingar. Ætli Jón sætti sig við það?

:: Atli 16:58 [+] :: ::
...
:: miðvikudagur, apríl 20, 2005 ::
Ég vil því nota þetta blogg mitt hér til að skora á Atla að fara í klippingu. Ef hann gerir það mun ég neyðast til að láta klippa mína fríðu lokka. Ef hann vill það ekki getur hann bara í staðinn byrjað kröftuga ritdeilu þar sem hann kallar mig krullhærðan fávita.

Einsog sjá má hér að ofan hefur mér borist áskorun nokkuð óljóss eðlis. Maður sem ég hef aldrei hitt né þekki nokkur deili á, að nafni Jón Örn, hefur skorað á mig að fara í klippingu. Þessi áskorun er komin til af því að hann var sjálfur beðinn um að fara í klippingu, en hann sagðist ekki mundu fara í klippingu nema að ég færi líka. Ef ég fer ekki - þá fer hann ekki heldur. Eitthvað eru vitsmunir Jóns af skornum skammti því ég get ekki séð í hverju áskorunin felst nákvæmlega. Áskoranir hafa þann eiginleika að beinast að einhverjum einum án tillits til annars. „Ég skora á þig að ræna þennan banka“, „ég skora á þig að léttast“, „ég skora á þig að sækja um skólavist“ o.s.frv. Áskoranir hafa engin tengsl við áskorandann. Jón getur, jú, vissulega skorað á mig að fara í klippingu en það myndi eitthvað þurfa að búa að baki, einhver tilgangur, einhver ávinningur. Eini ávinningurinn sem ég hef af því að fara í klippingu er sá að þá fer Jón Örn líka í klippingu. Hvernig gagnast það mér?
Ég skal glaður velta áskoruninni fyrir mér ef hún er skýrð nánar.
Annars þætti mér líka vænt að fá að lesa eitthvað örlítið um manninn á bakvið áskorunina. Er þetta háskólanemi? Hversu gamall? Reykvíkingur? O.s.frv.

:: Atli 23:50 [+] :: ::
...
:: mánudagur, apríl 18, 2005 ::
Það eru ótrúlega margir sem segjast ekki þola Woody Allen, en þegar á hólminn er komið kemur í ljós að viðkomandi hefur ekki séð eina einustu mynd. Þetta stjúpdóttur-mál virðist hafa náð sérstaklega vel til fólks hérna á Íslandi, og ótrúlegt að þenkjandi fólk láti það áhrif á mat listarinnar. Finnst það næstum hræsni í ljósi kvenfyrirlitningarinnar í meginstraums-rappi og barnaníðs R Kelly og mögulega Michael Jackson (þó ég telji reyndar sjálfur að hann sé saklaus). Þó MJ væri dæmdur sekur myndi öllum þykja „Don't Stop Till You Get Enough“ feitt - því það er það. Eins er Woody Allen algjör snillingur og Melinda and Melinda var bara rosalega skemmtileg.

:: Atli 22:19 [+] :: ::
...
Ókei, kannski pínulítið ósmekklegt, en...

...í Mogganum í morgun eru skrifaðar minningargreinar um konu sem hét því sérkennilega nafni Fregn Björgvinsdóttir. Ég gat ekki varist þeirri hugsun að nú væri þessi kona orðin Dánarfregn...

...hahaha!

:: Atli 08:46 [+] :: ::
...
:: sunnudagur, apríl 17, 2005 ::
Kannski var það fyrir áhrif frá of mikilli T3 skoðun, en ég endurhannaði skjáborðið mitt áðan og setti upp nokkra góða widgets hér og þar. Eins og þið sjáið er ég búinn að setja gellu á skjáborðið, flytja dockið til vinstri, skipta um icon á öllu og setja upp svona smá rými í efra hægra horninu. Þar sér maður alltaf hvaða iTunes lag er í gangi og getur skipt um lag eða pásað. Þar er líka leitargluggi sem leitar á Google, en maður getur líka látið hann leita í orðabók, á eBay o.fl. Gamli tölvunördinn gaus upp í mér og ég lærði aðeins á þessi widget og kom því í kring að núna get ég notað sama leitarglugga til að leita í símaskránni, á Amazon.com, á imdb.com og á Pitchfork. Snilld. Svo er veðrið í hægra horninu svona ef ég meika ekki að kíkja útum gluggann.


:: Atli 23:22 [+] :: ::
...
:: laugardagur, apríl 16, 2005 ::
Veðrið: Álíka viðbjóðslegt og útskitin sæng í útældu rúmi. Undir rúminu liggur lík og rotnar. Nályktina leggur um gjörvalt húsið.

Ég hef aldrei þekkt fegurðardrottningu, en ég hugsa að ég sé nógu kunnugur nýkrýndri ungfrú Reykjavík, Unni Birnu, til þess að segja hæ ef ég mætti henni á götu. Við höfum jú verið full saman á erlendri grundu. Hvað ætli DV myndi borga mér fyrir frásagnir af því?

:: Atli 20:04 [+] :: ::
...
Hvernig stendur á því að lagasmiðir ná hápunkti ferils síns yfirleitt í kringum 25 ára aldurinn, myndlistarmenn í kringum fertugsaldurinn og rithöfundar kannski tíu árum síðar? Eða læt ég kannski blekkjast af staðalímyndum sem eiga lítið skylt við veruleikann?

:: Atli 11:08 [+] :: ::
...
:: föstudagur, apríl 15, 2005 ::


Hér má sjá hvernig gestafjöldi á bloggi mínu hefur margfaldast síðustu daga, og ég á það allt Emli mínum að þakka. (Svona svipað og Baldur um Bald frá Baldri til Baldurs).
•••
Annars vil ég mæla með kvikmyndinni Maria Llena Eres de Gracia, en hún er alveg frábær. Ég held að ég hafi aldrei séð jafn raunverulega mynd (sem var ekki heimildarmynd), allavega svona framan af.
Svo er ég búinn að vera að skrifa ritgerð þar sem ég ber saman Nóru í Brúðuheimili eftir Henrik Ibsen (sem minnir mig á að, sjitt, ætli hann hefði nokkuð viljað að ég - af öllum - væri eitthvað að rýna og spá og spekúlera í verk eftir hann?) og Lýsiströtu í samnefndu verki eftir Aristófanes (sem byltir sér örugglega í gröfinni við tíðindin). Í dag byrjaði ég að fjalla um tækni- og tólatímaritið T3 (sem er örugglega siðlaust, því ég hef ekki haft samband við Future Publishing í Bretlandi) fyrir menningartímaritakúrsinn. Mér finnst þetta blað svo skemmtilegt að ég vona að ritgerðin muni að mestu skrifa sig sjálf og verði tilbúin í lok helgar. Ef einhver vill fá eintak af þessum ritgerðum, eða bara hvaða ritgerð sem er sem ég hef skrifað, er það sjálfsagt, nema að þú sért Emil.

Djöfull er ég skemmtilegur.

:: Atli 20:41 [+] :: ::
...
Já, heyrðu, ég gleymdi einu: Má ég semsagt nota dóminn þinn, Emil? Annars ætla ég nefnilega að finna mér nýtt ritgerðarefni. (Já eða nei nægir að þessu sinni...)

:: Atli 11:00 [+] :: ::
...
Keipdúnkurum til gagns ætla ég að birta nýjustu tíðindi ritdeilunnar sem færslu, því það er skemmtilegra að lesa þau svoleiðis heldur en í pinkulitlum kómentaglugga. Hér á eftir fer gífurlega langt og nokkuð gott innlegg frá Emil. Ég ætla að svara hverjum punkti stuttlega með skáletri:

„Ég held frekar að þessum 90% sem fylgjast með þessu undrist yfir maníunni í þér. Það geri ég líka, og mér er ekki skemmt.
Reyndar held ég að flestir hafi gaman af þessu, gestafjöldinn hefur allavega rokið upp. Mér er skemmt, ég skal játa það, ég hef unun af svona deilu.

Segjum sem svo að ég hafi tekið dóm minn af blogginu mínu, breytir það einhverju um áframhaldandi rugl í þér og, já, ærumeiðingar í minn garð. Afsökunin ógildir ekki neitt af því sem undan er farið.
Ég vil meina að engar ærumeiðingar hafi átt sér stað, ég nefndi þig t.a.m. ekki á nafn.

Ég er ekki lögfræðingur, en að birta án leyfis orð mín úr e-meilunum, snúa út úr þeim og kalla mig ýmsum ónöfnum... það er brot sem varðar ærumeiðingu.
Ég er ekki lögfræðingur heldur, en ég hugsa að ég hafi leyfi til að birta hvað sem ég vilji úr póstum sem ég fæ, nema sérstaklega sé tekið fram að um trúnaðarmál sé að ræða.

Ef þú sérð ekki hvað er rangt með arferli þínu ertu gjörsamlega siðlaus.
Mér finnst þetta nú fulllangt gengið í saklausri ritdeilu af þessu tagi

„Hvað áttirðu við þegar þú ýjaðir að því að ég ætlaði ekki að nota dóminn í ritgerðina.“

Fullnægir það maníu þinni ef ég svara þessu?
Vonandi, já.

Allt þitt framferði var grunsamlegt. Þegar ég fékk mína einkunn spurðirðu mig frekar taugaveiklað hvað ég hefði fengið. Þú sagðir: "9?? Ég fékk bara 7!!", og síðan fórstu eitthvað að tala við kennarann (um hvað, veit ég ekki). Ég pældi ekkert í þessu. Bara nokkuð sáttur við mitt, og nokk sama um hvað aðrir samnemendur mínir fengu.

Um viku eftir það, eða kvöldið fyrir næsta tíma í Gagnrýni og ritdómum, hringdirðu í mig og baðst mig um að koma með dóminn minn í tíma morguninn eftir, en þú gafst engar útskýringar fyrst. Ég þurfti að spyrja hvers vegna. Þá fékk ég mjög loðið svar um að þú ætlaðir að gera litla ritgerð fyrir sjálfan þig (takið eftir þessu, kæru lesendur.. fyrir sjálfan sig), en seinna þegar líða fór á þetta undarlega mál fórstu að breyta því yfir að þetta væri fyrir skólann. Allavega, mér fannst þú vera frekar frakkur að biðja svona um þetta, og á málrómnum að dæma var þetta ekki kurteisisleg beiðni, heldur eins og ég ætti barasta að gera þetta.
Upphaflega hugmyndin var að skrifa ritgerð fyrir sjálfan mig. Sú hugmynd breyttist vissulega, einsog þú bendir á, því ég sá fyrir mér að þetta gæti orðið skemmtileg lokaritgerð í Gagnrýni og ritdómum. Mér finnst perónulega ekkert frakkt við það að biðja um verkefni annarra, og ef málrómurinn hefur verið skipandi hefur það verið óvart og ég afsaka það. En ég get alveg sagt þér að ég gekk út frá því að þú myndir láta mig hafa dóminn, enda finnst mér stórkskrítið að gera það ekki.

Ég svaraði þér loðið. Ég sagði svona já, kannski, sé til. Mér fannst eitthvað bogið við þetta: "Atli Bollason, sem hefur mikinn áhuga á plötum og umfjöllun og gagnrýni um þær, vill fá dóminn minn. Sem heimild í ritgerð fyrir sjálfan sig??"

Ég mætti í tíma og var ekki með dóminn. Þú spurðir mig og ég svaraði að ég væri ekki með hann. Ég var að vona að þú myndir ekkert pæla síðan meira í þessu, því ég hélt að þetta væri bara smámál ... ég var ekkert að pæla í þessu og alveg slétt sama. Reyndar sama kvöld og þú hafðir hringt í mig þá hafði ég sent öðrum samnemanda mínum dóminn, og hann sendi mér sinn... til gagns og gamans. Þannig að "skeptíkin" liggur ekki þar.
Gaman væri að skoða kríteríuna yfir hver fær að skoða dóma og hver ekki.

Ég man ekki hvenær, en þú sendir mér e-mail þar sem þú ítrekaðir um að fá dóminn. Ég svaraði með einni setningu að ég væri ekki til í það. Þú þóttist ekki skilja hvað ég væri að fara því ég notaði orðið "setja".
Ég hélt að þú hefðir eitthvað misskilið mig, enda svarið meira en lítið sérkennilegt: „Æ já ég veit ekki. Var að pæla í þessu og dómurinn er mitt eigið hugverk sem ég er mjög ánægður með og myndi helst ekki vilja setja hann í ritgerð af þessu tagi.“

Síðan ræddirðu við mig í tíma. Varst frekar uppáþrengjandi og varst ekkert að virða mína ákvörðun og sagðir: "Ég er búinn að svara póstinum aftur frá þér. Kíktu á það."
Ég hélt ég hefði fremur verið hress en uppáþrengjandi, en svona er skynjunin mismunandi

Ég kíkti á það en svaraði ekki fyrr en eftir marga daga. Því ég hafði nóg annað að gera heldur en að pæla í þessu rugli. Fyrr í vikunni sat ég inná Hlöðunni við tölvu. Ég var að fara á fund eftir korter og var að fara í gegnum tölvupóstinn minn. Mundi þá að ég hefði átt eftir að svara þér. Í þessum pósti baðstu mig um að rökstyðja það afhverju ég vildi ekki láta dóminn frá mér. "Undarlegt", hugsaði ég. En ég svaraði svona í semí-hálfkæringi, og síst af öllu á neikvæðum nótum. Og ég tek fram, að í tveimur af þessum þremur póstum mínum, segi ég að mér líki vel við Atla. Og það geri ég ennþá.
Hér kemur skynjunin, og textatúlkunin sterk inn, því ég lít á „ástæðan fyrir neitun minni byggist á tortryggni um hver tilætlanin um skoðun á dómnum mínum sé“ sem neikvæðar nótur.

En þú brást hinn versti við í svarpósti þínum og spurðir hvernig ég hefði vogað mér að vera að persónugreina þig og tortryggja þig og hvaðeina. Mjög harðort bréf verð ég að segja, þar sem þú kallar það sem ég skrifaði heimsku.
Já, bréfið var svona frekar harðort, enda brá mér illa við að sjá ætlanir mínar tortryggðar á slikan hátt.

Ég svaraði af mildi og kurteisi. Sagðist ekki vilja rífast við þig eða neitt. Ég hélt að málið væri búið.

En um tveimur tímum eftir að ég hafði svarað þér þarna í síðasta skiptið, ákvað ég að kíkja á nokkur blogg, þar með talið þitt. Og hvað sé ég þá? Ég gapti af undrun og reiði. Ég hef aldrei upplifað þvílíka svívirðingu. Og sama hvað maður segir, þú heldur alltaf áfram. Eins og þú værir að berjast um einhver stig í Morfís. Þú notar oft fáránleg rök, t.d. að þú hafir ekki nefnt mig á nafn. Hverju skiptir það? Þú vissir að ég læsi bloggið þitt. Ég hef áður kommentað. Síðan vita flestir í bókmenntafræði að ég skrifaði um Album Leaf.
Mér finnst jú skipta höfuðmáli hvort þú ert nefndur á nafn eða ekki, við erum greinilega ósammála. Og ég efast stórlega að flestir í bókmenntafræði viti að þú hafir skrifað um Album Leaf. Svo finnst mér alltaf mjög skrítið að maður megi ekki skrifa nokkurn skapaðan hlut án þess að Morfís sé klínt á það á einn eða annan hátt.

Ég vil bara taka það fram, lesendur góðir, að ég á ekki neinn vott af upptökum af þessu máli og helst vildi ég að þetta hefði aldrei komið upp. En þið hljótið að sjá ástæðu þess að ég er að verja mig. Atli, hinn geðþekki og fyrrverandi MH-ingur, kallar samnemanda sinn "snarbilaðan" á mjög svo marglesna bloggi sínu. Mikill ósómi hér í gangi.
Ég skal játa á mig að hafa átt upptökin að málinu opinberlega, en þú áttir þau klárlega í tölvupóstsendingunum með því að gefa í skyn að ég væri óheiðarlegur á einhvern hátt.

En afhverju tortryggði ég þig Atli? Það hvarflaði ekki að mér að þú myndir stunda einhvern ritstuldur. Ástæðan er bara sú að mér líkaði ekki við það að þú fengir þetta í hendurnar, færir að rýna í þetta og spá og spekúlera. Það er aðalmálið. Kannski ætlaðirðu að nota þetta í sakleysi sem heimild, ég get ekki afsannað það, né þú sannað. Þú varst ekki sáttur með útkomu umræddra verkefna og vildir eflaust sjá hvernig ég gerði þetta, sjá mína aðferðafræði.
Ég er ekkert sérstaklega ánægður með þetta svar, finnst það í raun ekki varpa ljósi á neitt. Hvað þýðir það í raun og veru að þú viljir ekki að ég „rýni og spái og spekúleri“ í dómnum þínum? Auðvitað var markmið mitt sjá hvernig þú dæmdir plötu - ritgerðin fjallar jú um það hvernig plötur eru dæmdar. Ef ég hefði bara viljað skoða hann til að sjá hvernig þú gerðir þetta, punktur, þá þætti mér engu að síður sjálfsagt að þú létir dóminn af hendi og aðstoðaðir mig þannig við að skrifa betri dóma. Ég væri þá að læra af þeim bestu, ekki satt?

Ég er hlynntur því að fólk vinni saman og miðli innan veggja Háskólans. Hvar værum við sett ef samvinna væri ekki fyrir hendi? En hrokinn og frekjan í Atla hindruðu það að ég gat látið þetta frá mér. Ég meina ekkert illt með þessu, og þetta á ekki að vera sérstakt skot á Atla. Ég er bara að svara af einlægni og hreinskilni (eins og ég reyndi í póstum til Atla), því Atli vill fá svar, og ég vil að þessu máli ljúki. Vonandi sér fólk ekki ranga mynd af bókmenntafræðinni, þetta er allavega ekki daglegt brauð hjá okkur
Ef ég hef verið með hroka og frekju, þá hófst hann allavega ekki fyrr en löngu eftir að þú varst búinn að neita mér um dóminn og efast um heiðarleika minn.

En eftir þetta komment mitt, þá ætla ég að vona að Atli sjái sóma sinn í því að slökkva þann eld sem aldrei hefði átt að verða kveiktur.“
Ég skal glaður slökkva þennan eld. En ég vil að það komi skýrt fram, í þriðja sinn, að þetta snýst ekki fyrst og fremst um hvort þú hefðir átt að láta dóminn af hendi. Auðvitað ræðurðu því sjálfur. Persónulega hefði mér þótt skemmtilegt ef einhver hefði viljað nota dóminn minn sem dæmi. Og ég hefði ekki farið í manngreinaálit og sagt „þessi má nota dóminn minn, en ekki þessi“. Ég hefði allavega aldrei gert það án nánari skýringa. Aðalmál þessarar umræðu er hvers vegna þú efaðist um heilindi mín. Mér finnst fullkomlega eðlilegt að ég sé forvitinn um það hvers vegna einhver annar má nota dóminn þinn, en ekki ég. Og mér finnst jafnvel fullkomlega eðlilegt að ég taki það pinkulítið nærri mér að ég - persónulega - megi ekki nota dóminn þinn, því þú hefur einhverjar hugmyndir um mig sem ekki eru á rökum reistar.

Þetta eru mín lokaorð - því miður - því mér finnst fátt skemmtilegra en að standa í smá baráttu, þetta er sannkallað krydd í oft litlausa bloggtilveruna. Þetta er ekkert á sérstaklega alvarlegu leveli, og ég brosi út í annað yfir þeim sem virðast taka þetta sérstaklega nærri sér og finna til réttlætiskenndarinnar. Hey, slappið af, þetta eru bara bloggheimar. Ég lít svo á að samband okkar Emils standi óhaggað að því undanskildu að hann mun aldrei fá að nota neitt sem ég á. Nú bíð ég bara spenntur eftir næstu ritdeilu og auglýsi hér með eftir deilanda og ástæðu. Og ég er alveg viss um að ég hef rétt fyrir mér þegar ég segi að lesendum keipdúnksins hafi þótt gaman að fylgjast með deilunni og taka þátt í henni. Allir bókmenntafræðinemar sem ég hef allavega talað við hafa rætt þetta við mig af miklum áhuga og spurt mig út í hin og þessi smáatriði flækjunnar: „og vildi hann í alvöru ekki láta þig hafa hana!?“ Til að pirra Emil í lokin vil ég benda á að flestir hafa verið mér sammála (í samtölum við mig, þ.e.a.s., það er auðvitað líklegt að í samtölum við þig hafir þú átt stuðninginn vísan - gamli tvískinnungurinn). Lifið heil.

:: Atli 01:36 [+] :: ::
...
:: fimmtudagur, apríl 14, 2005 ::
Í garðinum mínum eru þrjár stúlkur, ekki eldri en níu ára, að hoppa á trampólíni. Ég heyri í sífellu hróp þeirra og köll: „Úúúú...sexy! Sexy boy! Hahahha...sexy! Ó beibeehh! Úlala beibí! You're on a G-string!“ Ég held að þetta hafi ekki alltaf verið svona.

:: Atli 17:03 [+] :: ::
...
Ég sá Mótorhjóladagbækurnar í gærkvöldi. Síðan las ég Marx þangað til ég sofnaði.

:: Atli 16:12 [+] :: ::
...
(Viðbót kl. 15:56: Safari var eitthvað að striða mér, því dómurinn er þarna enn. Ég afsaka mistökin. En færslan stendur, svona sem smá olía á neista sem var að slökkna.)

Það vekur athygli að Emil hefur tekið niður dóminn sem hann birti í gær á bloggi sínu. Þetta er í andstöðu við kóment sem hann ritaði í fyrrinótt (aðfaranótt miðvikudags):
Vegna þess hve "skeptískur" og "snarbilaður" ég er, þá er ég búinn að birta dóminn minn orðréttan eins og ég skilaði honum á blogginu mínu: www.emilhp.blogspot.com.

Ánægður Atli? .... En ég gef samt ekki leyfi fyrir notkun á dómnum í "ritgerðinni" þinni.
Svo virðist sem tortryggnin hafi aftur tekið völdin. Og enn er einni spurningu ósvarað: Hvað hélt Emil að ég ætlaði að gera við dóminn, annað en að nota hann sem heimild í ritgerð?

(Viðbót kl. 15:58: Fylgismenn Emils virðast misskilja eitt, og það er að þessi deila er í mínum huga hætt að snúast um hvort ég megi nota dóminn eða ekki, heldur hvað Emil átti við þegar hann ýjaði að því að ég ætlaði ekki að nota hann í ritgerðina. Það gerði hann með því að a) setja orðið "ritgerð" innan gæsalappa og b) efast um hver tilætlun mín með dóminn væri, í pósti sem hann sendi mér. Þetta er lykilspurningin, óháð því hvort hann átti eða átti ekki að láta mig hafa dóminn.)

:: Atli 12:09 [+] :: ::
...
:: miðvikudagur, apríl 13, 2005 ::
Hver elskar ekki smá ritdeilu?

:: Atli 10:36 [+] :: ::
...
:: þriðjudagur, apríl 12, 2005 ::
Mig langaði til þess að skrifa stutta ritgerð um muninn á því að gagnrýna tónlist annars vegar og sagnaverk (skáldsögur, smásögur, kvikmyndir) hins vegar. Samnemandi minn í Gagnrýni og ritdómum hafði skrifað dóm um plötuna In a Safe Place með Album Leaf, en dómurinn þótti vel heppnaður og fékk góða einkunn. Tónlistarumfjallanir á íslensku, sem eru lengri en 200 orð eru ekki á hverju strái, svo ég óskaði eftir því að ég fengi afrit af dómnum til að nota sem heimild í ritgerðinni. Fyrst fékk ég þetta tilbaka:
Æ já ég veit ekki. Var að pæla í þessu og dómurinn er mitt eigið hugverk sem ég er mjög ánægður með og myndi helst ekki vilja setja hann í ritgerð af þessu tagi.
Ég hélt kannski að hér væri einhver misskilningur á ferðinni; ég ætlaði ekki að „setja“ dóminn í neina ritgerð, heldur ætlaði ég að nota hann sem dæmi, heimild, um ítarlegan plötudóm. En ég var ekkert að misskilja, maðurinn er snargeðveikur, skv. tölvupósti sem ég fékk áðan:
Ástæðan fyrir neitun minni um að láta frá mér dóminn er ekki sú að ég sé feiminn við það að aðrir lesi hann, þvert á móti. Svo ég sé hreinskilinn, þá veit ég hvar metnaður þinn liggur Atli. Þú leggur mikinn kraft í námið og vona ég að þér vegnist vel í því sem þú tekur þér fyrir hendur, en þú hefur líka talsvert keppnisskap. Ég veit líka að þú hefur brennandi áhuga á tónlist og umfjöllun um hana. Það hef ég líka, og ég er mjög ánægður með hvernig til tókst með dóminn minn. Ástæðan fyrir neitun minni byggist á tortryggni um hver tilætlanin um skoðun á dómnum mínum sé.
Hvað heldur hann eiginlega að ég ætlist fyrir? Að stela dómnum og láta birta hann í eigin nafni? Heldur hann að ég sé einhverskonar ritgerðamorðingi, sem ætli að kasta rýrð á dóminn hans? Og meiraðsegja þótt svo væri, þá þætti mér allavega gaman að vita að einhverjum þarna úti þætti nógu mikið varið í dóminn minn til þess skrifa eitthvað um hann - hvort sem það væri gott eða slæmt. En ég hafði hvorugt í hyggju, ég vildi bara draga fram einkenni á plötudómi og bera saman við einkenni á sagnadómi.
Furðulegt alveg - og skrítið að maðurinn sé svona skeptískur á mig. Ég þarf greinilega eitthvað að lappa upp á ímyndina í bókmenntafræði ef menn treysta mér almennt ekki til að handfjatla ritverk þeirra.

:: Atli 16:45 [+] :: ::
...
:: mánudagur, apríl 11, 2005 ::
Maður færslunnar er alveg klárlega Biggi, en hann hefur dvalið á Spáni síðastliðna mánuði og lagt stund á spænsku og vænsku. Bloggið hans er óborganlega skemmtilegt (þegar hann uppfærir það) og fær bestu meðmæli keipdúnksins. Biggi var að hringja í mig og lyfti kvöldinu, sem hefur hingað til eingöngu einkennst af ritgerðaskrifum og mun væntanlega gera það framyfir miðnætti, upp á annað plan. Kappinn kemur heim eftir tvær vikur, eða rúmri viku áður en ég er búinn í skólanum, og ég tel nokkuð víst að við munum skemmta okkur vel saman, sérstaklega í ljósi þess að flestir aðrir verða þá enn í prófum og veseni.

Donny: Are these the Nazis, Walter?
Walter Sobchak: No, Donny, these men are nihilists. There's nothing to be afraid of.

:: Atli 21:37 [+] :: ::
...
:: sunnudagur, apríl 10, 2005 ::
Partíið í gær var furðu fámennt miðað við hversu góða umfjöllun það fékk á bloggi mínu og í SMSum sem ég sendi út - en kannski var það fjölmennt miðað við ritgerðarskil og próf sem eru framundan hjá háskólanemum, kórferðalag MHinga og „árshátíð“ fyrrum MRinga.
Ég skemmti mér allavega vel og ég held að flestir aðrir hafi gert það líka, sennilega best þeir sem þekktu flesta gesti og húsið mest.

Og smá kenning í lokin: Þau lög hljóta að vera best sem láta manni líða einsog töffara þegar maður hlustar á þau.

:: Atli 23:07 [+] :: ::
...
:: föstudagur, apríl 08, 2005 ::
Búinn að búa til 232 laga lista sem ætti að tryggja tæplega sextán klukkustunda partí annað kvöld.

:: Atli 11:45 [+] :: ::
...
Ég var í stystu tannlæknaheimsókn sem ég hef farið í. Ég er ekki að ýkja þegar ég segi að það leið innan við ein og hálf mínúta frá því að ég settist í stólinn og þar til mér var sagt að standa upp. Hann klippti semsagt burtu nokkra sauma og sagði að þetta liti vel út. Ég var að vonum ánægður og hélt heim.
Helst er það þó í fréttum að umsjónarmaður keipdúnksins, Atli Bollason, ætlar að halda teiti að heimili sínu annað kvöld. Þér er eflaust boðið, kæri lesandi.
Þannig er nefnilega mál með vexti að þó ég sé sjálfur ekki orðinn tvítugur, þá eru það flestir vina minna. Þegar sú stund fór að nálgast að þeir yrðu tvítugir fór að draga stórkostlega úr partíhaldi í heimahúsi - en ég vil endurvekja svona early-menntaskólapartístemmningu og ég vona að allir sem komi muni fylgja mér í því.
Ég er orðinn svo víraður að ég er að pæla í að útbúa playlista í iTunes til að spila á morgun. Sjáumst þá.

:: Atli 10:54 [+] :: ::
...
:: miðvikudagur, apríl 06, 2005 ::




You Are 18 Years Old



18





Under 12: You are a kid at heart. You still have an optimistic life view - and you look at the world with awe.

13-19: You are a teenager at heart. You question authority and are still trying to find your place in this world.

20-29: You are a twentysomething at heart. You feel excited about what's to come... love, work, and new experiences.

30-39: You are a thirtysomething at heart. You've had a taste of success and true love, but you want more!

40+: You are a mature adult. You've been through most of the ups and downs of life already. Now you get to sit back and relax.



:: Atli 15:25 [+] :: ::
...
Einhver bloggari, Tobbi held ég, skrifaði um daginn um kvikmyndina Wimbledon. Hann vildi meina að þetta væri ágætis skemmtun, og sagðist vera veikur fyrir svona myndum. Ég horfði á þess mynd í gær, og hún er vægast sagt ömurleg. Ein og hálf stjarna - á góðum degi. Það er ekkert gott við þessa mynd nema Kirsten Dunst, og bara þegar hún þegir - því Lizzie Bradwurst, eða hvað hún hét, er ekki beint áhugaverður karakter. Og ekki segja mér að ég hafi ekki gefið henni sjens eða sé fordómafullur; horfði ég ekki á myndina? Er ekki Wedding Singer ein af mínum uppáhaldsmyndum? Hafði ég ekki gaman að Notting Hill? Ég hélt það yrði dálítið gott tvist í lokin, þ.e. að þau mundu þurfa að mætast í úrslitaleiknum, en þá benti Svala mér á það að það er keppt í karlaflokki annarsvegar og kvennaflokki hinsvegar. Þar með flaug allt gott við þessa mynd útum gluggann. Í stuttu máli er þetta klisjukenndur vibbi, með afspyrnu leiðinlegri tónlist (að undanskyldu „Ghostwriter“), halllærislegum kvikmyndaeffektum og það sem er verst af öllu: Mér stökk ekki bros í eitt einasta skipti.

:: Atli 09:37 [+] :: ::
...
:: þriðjudagur, apríl 05, 2005 ::
Þegar mér er þakkað fyrir eitthvað, svara ég yfirleitt með því að segja „það var ekkert“ eða „það var lítið“. Slík svör nægja yfirleitt og ég og viðmælandi minn getum snúið okkur að öðru. En stöku sinnum svarar fólk hógværð minni með því að segja „nei, það var sko ekkert lítið“ eða „nei, það var alveg heilmikið“ eða eitthvað í þeim dúr. Þegar slíkt kemur upp á verð ég alveg orðlaus. Hvað á maður að gera? Taka hógværðina tilbaka: „Já, svona þegar þú minnist á þetta, þá var þetta bara alveg heilmikið mál“? Yfirleitt held ég henni til streitu og segi „jæja“ með efasemdartón. En það kallar bara á meira: „Jú, veistu það Atli, þú bjargaðir mér alveg“. Það er ekkert hægt að gera við þessu, nema þaga eða láta „ókei“ duga.

:: Atli 20:25 [+] :: ::
...
:: föstudagur, apríl 01, 2005 ::
Endajaxlarnir farnir. Og mér líður eins og neðri vörin sé á stærð við heilt höfuð. Kíkti í spegil. Hún er fullkomlega eðlileg.
Úrslit Morfís í kvöld. Mikið sem ég vona að FBingar taki þetta, að Verslingum ólöstuðum. Eða jú, kannski ég lasti þá aðeins. Efast um að ég sjái mér fært að mæta í Háskólabíó sökum skurðaðgerðar í hádeginu.
Og smá fyrir nördana (þið vitið hverjið þið eruð, en ég er ekki alveg viss um hverjir þið eruð...):
Ég keypti helling af plötum og diskum í NY. Er að reyna að skipta yfir í vínylinn. Það kemur allt út á vínyl og er auðvelt að fá nýjar og gamlar plötur, en erfitt að fá nýlegar, þeas plötur síðustu tíu ára eða svo. Mér skilst að um leið og plata er orðin nokkurra mánaða gömul verði hún sjaldséð á vínyl - þar til hún er endurútefin, eða fer að birtast notuð. En, hér er listi yfir alla titlana sem ég keypti:

CD
LCD Soundsystem: LCD Soundsystem
De La Soul: Buhloone Mindstate
Kranky Kompilation
Can: Ege Bamyasi (Remastered)
The Books: Thought for Food
Blue'n'Groovy
Van Dyke Parks: Song Cycle
Talking Heads: Fear of Music
Talking Heads: Remain in Light
Blue Note Revisited
Shining: In the Kingdom of Kitsch You Will be a Monster
The Zomies: Oddessey and Oracle (2004)
Camera Obscura: Underachievers Please Try Harder
Mogwai: Government Commissions
Fennesz: Endless Summer
Yo La Tengo: And Then Nothing Turned Itself Inside-Out
Junior Boys: Last Exit (bonus disc)
Yes: Yes
Yes: The Yes Album
Squarepusher: Ultravisitor
Animal Collective: Sung Tongs
DFA Compilation #2
Psapp: Tiger, My Friend
The Futureheads: The Futureheads
Four Tet: Rounds
Arve Henriksen: Chiaroscuro
The United States of America: The United States of America
Ornette Coleman: The Shape of Jazz to Come
Joy Division: Closer
µ-Ziq: Tango'n'Vectif (bonus tracks)
The Go! Team: Thunder, Lightning, Strike
Bloc Party: Silent Alarm
Erlend Øye: DJ Kicks
Zoffy: Thou Shalt Not Mess With Zoffy!
The Beach Boys: Smiley Smile / Wild Honey
Mu: Out of Breach (Manchester's Revenge)
Belle & Sebastian: Books (EP)

Vínyll
Devo: Q: Are We Not Men? A: We Are Devo!
Panda Bear: Young Prayer
Neutral Milk Hotel: In the Aeroplane Over the Sea
Prefuse 73: Surrounded by Silence
The Arcade Fire: Funeral
The Velvet Underground: White Light / White Heat (Collectors ed., hvítur vínyll)
Animal Collective: Here Comes the Indian
The Beach Boys: Smile (bootleg)
Keith Emerson: With the Nice
Herbie Hancock: Headhunters
Franz Ferdinand: Micheal (12")
Boards of Canada: In a Beautiful Place in the Country (EP)

Vá. Þetta var mikið. Fjörutíu og níu stykki. Eins og gefur að skilja hef ég nú þegar komist yfir að hlusta á, tja, heilar fjórar plötur. En það er mikil veisla framundan.

:: Atli 17:25 [+] :: ::
...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?
:: gestir ::
Weblog Commenting by HaloScan.com