:: keipdúnkur atla bollasonar ::

:: velkomin :: bollason[hja]gmail.com :: plotusafn (gamalt) ::
[::..tenglar..::]
:: bolladóttir [>]
:: brissó [>]
:: tobbi túkall [>]
:: pjotr-beikon [>]
:: oddur [>]
:: halastjarnan erla [>]
:: steini teague [>]
:: kalli (aka sverrir) [>]
:: bragi málefnalegi [>]
:: heklurnar [>]
:: sandra sello [>]
:: dagga [>]
:: orri tomasson [>]
:: atli vidar [>]
:: doddeh [>]
:: doktor sindri [>]
:: daily photo [>]
:: ragga sturlada [>]
:: baldur.april.is [>]
:: alma [>]
:: stígur lýgur [>]
:: krummi [>]
:: heilagur hrafn [>]
:: dagar puka [>]
:: the big jko [>]
:: sólveig helgabarn [>]
:: kpt. kata litla [>]
:: sólberg [>]
:: steindór [>]
:: kommóðan [>]
:: biggi [>]
:: frikki [>]
:: herra garðar [>]
:: steinþór helgi [>]
[::..gamalt..::]
12/01/2002 - 01/01/2003 01/01/2003 - 02/01/2003 03/01/2003 - 04/01/2003 04/01/2003 - 05/01/2003 05/01/2003 - 06/01/2003 06/01/2003 - 07/01/2003 07/01/2003 - 08/01/2003 08/01/2003 - 09/01/2003 09/01/2003 - 10/01/2003 10/01/2003 - 11/01/2003 11/01/2003 - 12/01/2003 12/01/2003 - 01/01/2004 01/01/2004 - 02/01/2004 02/01/2004 - 03/01/2004 03/01/2004 - 04/01/2004 04/01/2004 - 05/01/2004 05/01/2004 - 06/01/2004 06/01/2004 - 07/01/2004 07/01/2004 - 08/01/2004 08/01/2004 - 09/01/2004 09/01/2004 - 10/01/2004 10/01/2004 - 11/01/2004 11/01/2004 - 12/01/2004 12/01/2004 - 01/01/2005 01/01/2005 - 02/01/2005 02/01/2005 - 03/01/2005 03/01/2005 - 04/01/2005 04/01/2005 - 05/01/2005 05/01/2005 - 06/01/2005 06/01/2005 - 07/01/2005 07/01/2005 - 08/01/2005 08/01/2005 - 09/01/2005 09/01/2005 - 10/01/2005 10/01/2005 - 11/01/2005 11/01/2005 - 12/01/2005 12/01/2005 - 01/01/2006 01/01/2006 - 02/01/2006 02/01/2006 - 03/01/2006 03/01/2006 - 04/01/2006 04/01/2006 - 05/01/2006 05/01/2006 - 06/01/2006 06/01/2006 - 07/01/2006 11/01/2006 - 12/01/2006 12/01/2006 - 01/01/2007 01/01/2007 - 02/01/2007 02/01/2007 - 03/01/2007 03/01/2007 - 04/01/2007 04/01/2007 - 05/01/2007 05/01/2007 - 06/01/2007 06/01/2007 - 07/01/2007 07/01/2007 - 08/01/2007 10/01/2007 - 11/01/2007 11/01/2007 - 12/01/2007 12/01/2007 - 01/01/2008 01/01/2008 - 02/01/2008 02/01/2008 - 03/01/2008 03/01/2008 - 04/01/2008 04/01/2008 - 05/01/2008 05/01/2008 - 06/01/2008 06/01/2008 - 07/01/2008 08/01/2008 - 09/01/2008 09/01/2008 - 10/01/2008 01/01/2009 - 02/01/2009 02/01/2009 - 03/01/2009 04/01/2009 - 05/01/2009 12/01/2009 - 01/01/2010

:: laugardagur, október 30, 2004 ::

Rólegri gerast kvöldin í mínu lífi að helgi til ekki en gærkvöldið. Horfði á sjónvarpið, sem kemur sjaldnast fyrir, til kl. hálftíu. Þá tók við ólögleg niðurhalning á tónlist. Síðan gítarglamur og lestur á leikritinu La vida es un sueño e. Calderón de la Barca (reyndar sem Life is a Dream). Ég fór í rúmið um kl. eitt. Ég vaknaði hins vegar ekkert fyrr, eða var nokkuð hressari heldur en eftir hefðbundið helgardjamm, svo í þessu fyrirkomulagi felast engir augljósir kostir aðrir en þeir að það er ósköp þægilegt að slaka bara babarinn aleinn heima hjá sér annað slagið. Verð líka frekar rólegur í kvöld, gríp í spil í mesta lagi. Kvíðið þó engu, ég fékk mér að sjálfsögðu bjór á fimmtudaginn á öðru bjórkvöldi Torfhildar sem var satt best að segja alveg stórskemmtilegt. Á föstudaginn fannst mér í fyrsta skipti vera komin á almenn manneskjuleg tengsl í skólanum.
Nú rembist ég einsog rjúpan við staurinn (hvenær rembast rjúpur við staura?) við að skrifa 3-4 síðna ritgerð um ljóðið Hviids Vinstue e. Snorra Hjartarson. Það gengur...hægt.

Plötur
Dungen: Ta Det Lugnt
Architecture in Helsinki: Fingers Crossed
My Bloody Valentine: Loveless
Television: Marquee Moon
Keith Fullerton Whitman: Playthroughs
Books: Lemon Of Pink
Mouse on Mars: Autoditacker
Prefuse 73: One Word Extinguisher / Extinguished: Outtakes
Mogwai: Happy Songs for Happy People

:: Atli 19:06 [+] :: ::
...
:: fimmtudagur, október 28, 2004 ::
Nokkrir umræðupunktar:

• Einusinni var krökkum strítt - í dag eru krakkar lagðir í einelti.
• Einusinni voru börn heimsk - í dag eru þau ýmist lesblind eða með athyglisbrest.
• Einusinni voru krakkar óþekkir - í dag eru þau ofvirk.
• Einusinni voru börn flengd - í dag eru þau fórnarlömb heimilisofbeldis.

Er ekki verið að flækja málin?

:: Atli 14:17 [+] :: ::
...
:: sunnudagur, október 24, 2004 ::
Iceland Airwaves

Ég verð að játa það. Ég elska Airwaves. Borgin umturnast algjörlega. Í þrjá daga gleymist það algjörlega að Reykjavík er ekkert nema ofvaxið fiskiþorp. Maður finnur bókstaflega lyktina af menningarlífinu, misfagrir tónar flæða út um hverja gluggarifu, undan hverjum dyrakarmi og það er einsog borgin vakni af svefni sem hún sefur hinar fimmtíu helgar ársins. Hlutfall hipstera snarhækkar og maður verður stoltur af því að geta tekið þátt í svona stórkostlegri hátíð. Airwaves sýnir það og sannar að það þarf ekki mikið til að lífga miðbæinn við og gera Reykjavík að sannkallaðri heimsborg.
Orðaskipti mín við pylsusalann á Bæjarins beztu lýsa þessu kannski best: „Ert þú á þessari loftbylgju-hátíð?“ spurði hann. „Já, já“, svaraði ég. „Það hlaut að vera að það væri eitthvað í gangi í bænum. Ég hef afgreitt svo mikið af andlitum sem ég kannast ekki við.“

Fimmtudagur

Ég ákvað að blóðmjólka hátíðina gjörsamlega og var sestur upp í strætó klukkan kortér í sjö. Stefnan var tekin á Hafnarhúsið. Þýska rafpopphljómsveitin To Rococo Rot hóf leik sinn á slaginu sjö. Sveitin er frá Düsseldorf og Berlín og er ein af upphafssveitum Berlínarskólans í rafpoppi sem hefur átt miklu fylgi að fagna sl. ár, sérstaklega á merkinu Morr Music (en krakkarnir okkar í múm gáfu þar út skífu fyrir fáum árum). To Rococo Rot er tríó, einn bakvið tölvuskjá, einn við trommusett og sá síðasti flakkar milli bassagítars og hljómborðs. Sveitin vinnur mikið með samspil forritaðra trommuhljóða og raunverulegra og byggir mikið á endurtekningum og hægt vaxandi spennu. Einstaklega mínímalískt. Þegar þeim tekst vel upp hefur þetta mikil áhrif og skilar sér í virkilega flottum lagasmíðum, en þegar illa tekst upp verður þetta einfaldlega einsleitt og langdregið. Þjóðverjunum tókst að skila svona öðru hverju lagi vel, en hinu hverju illa.
To Rococo Rot fór ögn yfir tímann sem þeim var skammtaður og næsta sveit, Adem, var nokkuð lengi að koma sér fyrir svo prógramminu var strax farið að seinka. En biðin var þess virði því Adem var virkilega flott band. Fjórir Bretar sem spiluðu einstaklega þægilegt og lágstemmt þjóðlagapopp. Hljóðfæraskipan var nokkuð sérstök; á sviðinu mátti sjá kassagítara og bassa, en einnig pumpuorgel, klukkuspil, frumstæð strengjahljóðfæri og eitthvað sem ég kýs að kalla hringfón. Forsprakkinn Adem Ilhan var með glæsilega rödd sem passaði eins og flís við rass við lögin sem þeir fluttu, en þau áttu það öll sameiginlegt að vera hljóðlát, fögur og brothætt. Sumir vildu kalla þau væmin, en mér fannst þau bara einlæg.
Þá stigu á sviðið bresku rokkararnir í Hood. Þeir voru einnig að gera tilraunir til þess að splæsa saman raftónlist við lifandi flutning. Sú tilraun mistókst. Trommari Hood átti mjög erfitt með að spila í takt við undirspil af bandi, söngvarinn hitti sjaldnast á þær nótur sem hann vildi og öll tilfinning sem hann reyndi að setja í orðin fór fyrir ofan garð og neðan og virkaði einfaldlega hjákátleg. Ekki bætti úr skák að hljómsveitin var illa æfð (og hafði meiraðsegja orð á því sjálf) og hljómur var vondur – það heyrðist varla í rafmagnsgítar og bassa fyrir trommum og afspili. Ég entist ekki nema í rúm þrjú lög með Hood og flúði á bjórkvöld bókmenntafræðinema á Prikinu, þar sem var þægileg og góð stemmning.
Klukkan tæplega hálfellefu hélt ég aftur niður í Hafnarhús að sjá breska raftónlistarmanninn Four Tet troða upp. Þess má geta hér að Four Tet og Adem voru eitt sinn saman í hinni ágætu hljómsveit Fridge. Four Tet vinnur mikið með trommulúpur sem hann hefur sankað að sér úr ýmsum djass- og fönklögum og sett í mjög hip-hoppvænt samhengi. Hann var einbeittur á svip bakvið tvær fartölvur, stóran hljóðblandara og fjall af snúrum. Four Tet snéri hljóðum sínum í hringi, á hvolf, tók þau í sundur og raðaði aftur saman, teygði og togaði svo oft urðu úr óhljóð. Þó lögin yrðu oft hálfgerðar langlokur hafði ég mjög gaman af því að dilla mér í takt við músíkina og bíða spenntur eftir því hvað væri handan við hornið.
Því næst hristi ég rassinn í tæpan klukkutíma við plötur breska drum’n’bass plötusnúðsins London Elektricity, en hann lék það ferskasta úr breakbeat senunni á Kapítal. Lítið um það að segja, það var enginn lifandi flutningur, en trommubreikin voru nógu andskoti fönkí og bassinn dýpri en vitund mín sjálfs.
Hjá sænsku rokkgellunum í Sahara Hotnights kvað við annar tónn. Stelpurnar hafa greinilega verið að hlusta mikið á The Hives og The Who, og ekkert skrítið þar sem þær hafa verið að hita upp fyrir þá fyrrnefndu. Mér finnst alltaf gaman að sjá kvenrokkara, það er einfaldlega miklu meira spennandi. Og þær voru með öll rokkmúvin á hreinu, stigu fram á sviðið þegar það átti við, dilluðu sér fram og tilbaka, trommuleikarinn var ósýnilegur fyrir ljósum hárlokkum sínum sem þeystust um allt á háhraða og söngkonunni var svona nett sama um þetta allt. Tónlistin var mjög poppað rokk, nokkuð þungt á köflum, en missti aldrei sjónar á tilgangi sínum sem er að skemmta og fá fólk til að dansa. Mér var skemmt og ég dansaði (og þær voru ógeðslega sætar) svo ég get ekki kvartað.

Föstudagur

Ég var líka snemma í því á föstudeginum og mætti á NASA rétt uppúr hálfníu til þess að sjá Grams. Þrír drengir, vel þekktir úr djassgeiranum á Íslandi, fluttu virkilega spennandi nýbræðing (neo-fusion). Spuni var fyrirferðarmikill en aldrei þannig að maður missti sjónar á laginu. Hljóðfæraleikur var til fyrirmyndar og á tíðum náðist upp stórkostleg spenna. Það er hálfsorglegt hversu fáir Íslendingar sáu sér fært að sjá þessi óskabörn framsækinnar tónlistar leika listir sínar, því Grams eru búnir að skapa eitthvað mjög sérstakt og þess virði að heyra.
Þá tóku við Dáðadrengir. Þeir voru með mikla sýningu; bassaleikarinn var málaður að hætti KISS en hinir töluvert minna. Bjórhellingar og gerviblóð komu við sögu og vöktu mikla kátínu hjá tónleikagestum sem voru farnir að streyma inn. Tónlistin er einhverskonar hip-hopp, en með sterkum danstónlistar- og rokkáhrifum. Mikil partítónlist. Textarnir eru t.d. ekkert til að liggja yfir, heldur eitthvað til að hoppa við. Dáðadrengir stóðu sig vel, þó að heyra hefði mátt ákveðin mistök í spilamennskunni þegar tók að líða á tónleikana.
Næstir á svið voru Skytturnar frá Akureyri. Í gegnum tíðina hef ég haft gaman af rappinu þeirra, oft studdu af virkilega flottum töktum þar sem klipptur og skorinn gítar hefur oft komið við sögu. Nú höfðu þeir með sér gítarleikara sem lék á glæsilega græju sem hefði fengið menn til að tárast á níunda áratugnum. Skytturnar voru ekki þrjár, heldur mun fleiri og stundum velti maður því fyrir sér hvort allir hefðu í raun eitthvað hlutverk. Þetta var hip-hopp í grunninn, en stundum var rokkaður gítarleikurinn á mörkum þess að virka póst-módernískur, sérstaklega þegar hann braust út í gítarsóló sem Metallica gæti verið stolt af. Þeir mega þó eiga það að þeir náðu upp nokkuð góðri stemmningu.
Ég flúði þá í Hafnarhúsið til að sjá Norðmanninn Magnet troða upp. Hann lék hugljúft og dreymandi popp með raftónlistaráhrifum. Lagasmíðar Magnet voru flottar og hann var sjálfur augsýnilega í miklu stuði og ánægður að vera kominn til Íslands. Skemmtilegt var að sjá hann leika á bandalausan gítar (sem hann kallaði magnetophone). Fólkið í Hafnarhúsinu var mjög ánægt með Magnet og fagnaðarlætin jukust að hverju lagi loknu. Mér fannst nokkuð sárt að yfirgefa NASA og missa af Forgotten Lores en Magnet sannfærði mig um að til þess væri engin ástæða.
Kanadíski plötusnúðurinn Kid Koala, sem þeytti eitt sinn skífum með Invisibl Skratch Picklz, var nýbyrjaður þegar ég kom aftur inn á NASA. Hann skeytti saman tónlist úr öllum áttum án þess að maður gerði sér grein fyrir því að ekki væri um að ræða heilsteypt lög. Sérstaka kátínu vakti þegar hann spilaði Bachelorette Bjarkar og klíndi hörðum fönktrommutakti á. Þá tók við sóló sem hann lék með plötuklóri yfir blús-grúv. Ótrúlegt að sjá, allt að því trúarleg upplifun. Ekki síðri voru prakkarastrik hans með Moon River, en hann lék lagið af tveim plötuspilurum samtímis og klóraði ýmist í eða breytti um hraða svo úr varð súrrealískur hljóðskúlptur sem missti þó aldrei tengsl sín við upprunalega verkið.
Hjálmar voru næstir á svið. Platan þeirra Hljóðlega af stað hefur fengið frábæra dóma og mikla spilun á Rás 2. Það er talað um að loksins sé komin fram almennileg íslensk reggíhljómsveit. Þeir náðu upp mjög góðri stemmningu í salnum, voru einkar fagmannlegir, spilamennskan var hérumbil óaðfinnanleg – en mér finnst lögin þeirra alveg drepleiðinleg. Hver einasti tónn úr hálsi söngvarans framkallaði langan geispa hjá mér. En fólkið virtist taka vel í þetta svo kannski ætti ég ekkert að vera að ibba mig.
Bresku elektró-fönk-poppararnir í Hot Chip voru öllu skemmtilegri. Þeir höfðu sérstaka sviðsframkomu, röðuðu sér fimm saman í beina línu fremst á sviðinu, hver og einn með hljóðgervil fyrir framan sig, og hver og einn með ákveðið lúkk. Einn ber að ofan, einn í hip-hopp-úlpu, einn jakkafataklæddur, einn nördalegur og einn í sveittri íþróttapeysu. Hljóðheimurinn var náskyldur níunda áratugnum, enda á hann svo mikið upp á pallborðið þessa dagana. Margir töluðu um Hot Chip sem uppgötvun hátíðarinnar. Þó ég sé ekki sammála því komu þeir þægilega á óvart og ef ég rekst á plötu með strákunum mun ég sennilega kippa henni með.
Að lokum léku Jagúar lög af væntanlegri plötu sinni. Tónlist Jagúar hefur tekið miklum breytingum síðastliðin ár. Hún hefur hallað sér mun meir í átt að diskói, þó svo að fönkið sé enn sterkt. Forsprakkinn Sammi er farinn að syngja mun meira og miklu betur heldur en áður. Háu tónarnir eru ekkert mál fyrir strákinn (Curtis Mayfield kemur uppí hugann) og söngurinn býður óneitanlega upp á meiri samskipti við salinn. Jagúar eru frábærir hljóðfæraleikarar og nýju lögin þeirra eru sjúklega dansvæn. Helsti löstur þessara tónleikar er hversu langir þeir voru, eða alltof.

Laugardagur

Sökum útskriftarveislu nokkurra bókmenntafræðinema var ég seinna á ferðinni á laugardeginum en ella. Þeir hljóta þó þakkir fyrir skemmtilega veislu og góðar veigar. Mugison var sá fyrsti sem ég sá þetta kvöldið, þó ekki nema rétt rúm tvö lög. Platan Lonely Mountain sem hann gaf út fyrir tæpum tveimur árum er einhver albesta íslenska plata síðustu ára og þess vegna var ég mjög spenntur. Mugi var heimilislegur, fékk pabba sinn t.d. á sviðið í seinasta laginu, og spjallaði við áhorfendur. Ég kunni vel að meta rólyndislegt indírokkið og hefði viljað sjá meira.
Næst steig á svið hin alls óþekkta Unsound en hún virtist vera eins mann verkefni plötusnúðsins KGB. Hann hlýtur að hafa togað í heldur marga spotta til að komast að á þessum tíma á þessu kvöldi. Því hefði hann heldur sleppt, því tónlistin sem hann bauð upp á var gamaldags og einkar óspennandi. Ekki var sjónræna upplifunin betri.
Ég entist ekki lengi og hélt yfir á Keane. Mikill fjöldi fólks hafði safnast þar saman til að heyra í þessum bresku góðustrákum. Þetta var sannkallað Bylgjupopp, rann átakalaust og áhrifalítið í gegn. Hvert lag bauð upp á kveikjaraveifingar og viðlög sem allir geta sungið með í. Trommuleikarinn og hljómborðsleikarinn fóru heldur mikinn á sviðinu miðað við tónlistina sem þeir léku. Heldur kýs ég Coldplay. Í stuttu máli heilluðu Keane mig ekki og ég fór í fjórða lagi yfir í heljarlanga biðröð utan við Gauk á stöng.
Þegar inn var komið voru The Stills að hefja leikinn. Þeir voru mjög svalir og yfirvegaðir á sviðinu, reyndar þannig að mér sýndist gítarleikarinn vera að drepast úr leiðindum. Það gerði ég hinsvegar ekki og naut kraftmikils og dramatísks rokksins sem Kanadamennirnir framreiddu. Á köflum urðu lögin allt að því dansvæn, en ofan á þykkum vef gítars, bassa, hljómborðs og taktfastra tromma hvíldu yfirleitt fagrar laglínur í moll. Í lokalaginu kom trommarinn fram á sviðið og söng meðan rafrænar trommur af bandi leystu hann af. Síðan tíndust þeir af sviðinu einn í einu þar til bassaleikarinn fór að framkalla mikil óhljóð sem settu punktinn aftan við Stills.
Ég var mjög spenntur fyrir næstu hljómsveit, The Shins, og olli hún mér ekki vonbrigðum. Bassa/hljómborðsleikari sveitarinnar var í miklu stuði og reytti af sér brandara þess efnis að þeir væru komnir til þess að bræða ísinn á Íslandi. Shins spila einhverskonar indípopp sem kallar fram sólina í hjörtum okkar og fær okkur til að syngja. Það kom mér helst á óvart hve lagasmiður og söngvari sveitarinnar, James Mercer, er gamall. Shins skiluðu hverri perlunni á eftir annarri, og þrátt fyrir gífurlegan troðning leið mér vel alla tónleikana og gekk út með bros á vör.
Trabant urðu næstir fyrir valinu og héldu uppteknum hætti: þeir voru með heljarinnar sýningu með eldglæringum og nekt og miklum látum og stuði. Trabant hafa tekið U-beygju frá plötunni Moment of Truth frá 2001 og leita nú sífellt nýrra leiða til að sjokkera og gleðja tónleikagesti. Erótískir textar („I’m a little nasty, I’m a nasty little boy. I’m a little useless, I’m a useless little toy“) og kynferðisleg framkoma er alltaf eitthvað sem dregur að og ég er engin undantekning. Tónlistin á einnig rætur í hljóðheimi níunda áratugarins og virkar meira einsog undirspil við sýninguna heldur en heil lög beinlínis. Þetta er ekki umkvörtun heldur staðreynd og dregur ekkert úr þeirri upplifun sem tónleikar með Trabant eru.
Gus gus létu bíða svo lengi eftir sér að ég var búinn að ákveða að gefa þeim falleinkunn í þessum dómi, en þegar taktföst bassatromman fór að slá og hljóðgervlarnir endurtóku dansvæn stefin vissi ég að það var eitthvað flott í vændum. Helsti gallinn á tónlistinni er sú að hún er mjög lík tíu ára gamalli danstónlist, en hverjum er ekki sama þegar maður getur hrist sig svona. Urður og President Bongo fóru mikinn á sviðinu og en ég fékk það samt á tilfinninguna að hver sem er gæti í raun gegnt hlutverki hans. Það sem ég saknaði á þessum tónleikum voru myndvarpanir eða annarskonar sjónræna, því Gus gus hafa yfirleitt lagt mikið upp úr því að allt útlit sé í lagi. Ég var þó orðinn lúinn og hélt heim á leið að hálftíma liðnum.

Á heildina litið er afstaðin enn önnur stórkostleg Airwaves hátíð þar sem borgin iðaði af lífi og maður fékk að taka púlsinn á tónlistarlífi landans og heimsins. Að mínu mati stóðu Adem og The Shins upp úr og mér finnst einnig að Kid Koala eigi skilið sérstakt hrós fyrir ótrúlega færni. Ég einbeitti mér að útlendu listamönnunum í ár, sá einungis sex íslenskar hljómsveitir, en ég held barasta að Grams hafi borið höfuð og herðar yfir landa sína. Leitt þykir mér að hafa misst af Isidor, en ég vona að þeir fyrigefi mér í þetta skiptið.

:: Atli 14:43 [+] :: ::
...
:: fimmtudagur, október 21, 2004 ::
Oddur! Þú ert dauður! Ég var að skoða arkívin hjá kallinum og fann eftirfarandi:
Kvöldið hófst með því að hin mæta Funk-hljómsveit Nortón steig á svið... ekki voru þeir uppá marga fiska... að mörgu leyti áhugavert... en samt ekki.
Þetta ritaði kallinn í september 2002 og einn daginn - einn daginn, Oddur - þá færðu að finna fyrir því.

Platan
Dungen: Ta Det Lugnt

:: Atli 17:55 [+] :: ::
...
Það er dálítið skrítið að Arnþór Jökull, drengurinn sem á nú yfir höfði sér kæru vegna vopnaðs ráns í Hringbrautarapóteki, þess að hafa ógnað manni með afsagaðri haglabyssu, vegna þess að hafa strokið úr fangelsi og nú síðast að hafa veizt að manni á Dominos í Hafnarfirði auk annarra brota - var með mér í bekk í nokkra mánuði. Það var alltaf dálítið óljóst hversvegna hann byrjaði í Fossvogsskóla, hann bjó jú við Ægisíðu. Þetta hefur verið í svona 11 ára bekk. Hann var nýkominn frá Svíþjóð og það var alveg ljóst að það var ekki allt í lagi heima hjá honum. Hann hjólaði í skólann á morgnana úr Vesturbænum, ég man að það þótti mér mjög skrítið. Allt í góðu fyrir fullvaxta fólk, en dálítið langt fyrir barn. Reyndar var hann mjög stór og loðinn í samanburði við hina strákana í bekknum. Hann var mjög fyndinn og hans treidmark var eitthvað drepfyndið lag sem hann söng á sænsku og hófst á því að hann setti lófann fram og sagði: „STOPP.“ Hann átti bróður sem var árinu eldri og hét Fáfnir (og heitir örugglega enn). Sá var meira en lítið sérkennilegur, ég held að hann hafi átt við einhverja fötlun að stríða. Ég fór einu sinni heim til Arnþórs og við spiluðum fótbolta við Ægisíðuna. Síðan gufaði hann upp og ég hafði ekki séð hann fyrr en ég sá möggsjottið af honum í DV í gær.
•••
Airwaves hefst í kvöld, svo ég er kominn í þriggja daga djammdæmi. Ætli ég reyni samt ekki að nýta dagsbirtuna til þess að læra eitthvað. Í kvöld verð ég mest niðrí Hafnarhúsi að fylgjast með tónlistarmönnum af enska Domino-merkinu leika listir sínar. Kannski maður bregði sér þaðan til að hitta fulla bókmenntafræðinema á Prikinu.

:: Atli 11:16 [+] :: ::
...
:: miðvikudagur, október 20, 2004 ::
Fór að sjá heimildamyndina Outfoxed í Háskólabíói. Hún fjallar um það hvernig Fox News fréttastöðin í Bandaríkjunum segir frá. Maður getur ekki annað en komið sár og aumur og pirraður út af svona mynd. Þarna er manni sýnt svart á hvítu hvernig sannleikurinn er algjört aukaatriði í fréttaflutningi Fox, hvernig fréttamenn hljóta ströng fyrirmæli um hvað skuli fjalla, hvernig Repúblikanaflokkurinn er varinn í öllu sem hann gerir og Demókrataflokkurinn gagnrýndur um leið í öllu. Það var sláandi að sjá niðurstöður skoðanakönnunar sem framkvæmd var: Spurt var hvort tekist hefði að sanna tengsl milli Íraks og Al-Quaeda samtakanna. 67% áhorfenda Fox News töldu svo vera en einungis 15% þeirra sem völdu aðra fréttamiðla. Og svo dirfast þeir að flytja fréttir undir slagorðinu Fair & Balanced. Gróðasjónarmið ráða svo miklu í nútímanum að öll gildi virðast á undanhaldi. Það sem er verst við þetta er að ég sá myndina ásamt kannski 15 öðrum í sal 2 í Háskólabíói. Það er öllum sama, eða fólk veit hreinlega ekki hversu mikið misréttið í heiminum er í dag, eða fólk vill ekki vita það. Ignorance is bliss. Því er ekki að neita. En hversu gott getur verið að vera ignorant?

Plötur
Dungen: Ta Det Lugnt
Brian Wilson: SMiLE
Ratatat
Velvet Underground & Nico
Velvet Underground
Broken Social Scene: You Forgot it in People

:: Atli 23:32 [+] :: ::
...
:: mánudagur, október 18, 2004 ::
Vafalaust leist mörgum ekki á blikuna í morgun þegar ljóst varð að snjórinn væri kominn, þó ekki væri magnið mikið. Mér fannst þetta aftur á móti heillandi sjón og brosti við snjónum og tók honum opnum örmum. Síðan sleppti ég því að klæða mig og hóf lestur undir teppi við einstaklega blíðan og vetrarlegan undirleik Sufjan Stevens sem söng um fæðingarfylki sitt Michigan. Þá braust sólin fram úr skýjunum og gerði morguninn að óviðjafnanlegum vetrarmorgni sem hefði bara þurft ögn meiri snjó til að verða fullkomlega sannfærandi í hlutverki sínu. Ég held við getum alveg talað um 18. október sem fyrsta vetrardag ársins 2004, þó ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að þessi snjór verður án efa horfinn áður en vikan er á enda. Það helst ekki lengur snjór á Íslandi. Þegar ég var yngri útbjuggu gröfur borgarinnar himinháa snjóskafla í hverjum botnlanga götunnar og þeir voru til staðar allan veturinn. Þar voru háð stríð og á góðum dögum tókust jafnvel ástir. En í dag erum við heppin ef við fáum einhvern snjó, og það telst til kraftaverka ef hann helst óáreittur í viku. Hann bráðnar ýmist eða rignir burtu. Einsog æskan.

:: Atli 11:31 [+] :: ::
...
:: miðvikudagur, október 13, 2004 ::
Hún Svala mín á afmæli í dag og mér finnst að allir eigi að drífa sig yfir á gefmerfive.blogspot.com og óska stelpunni til hamingju, enda tvítug orðin.

P.S.
Takk fyrir að kómenta á ljóðið mitt.

:: Atli 22:32 [+] :: ::
...
:: mánudagur, október 11, 2004 ::
Síðasta færsla varð til þess að ég hlaut tengil á síðunni stadfesta.blogspot.com undir nafninu ungur íhaldsmaður. Umsjónarmaður síðunnar hefur greinilega ekki haft fyrir því að lesa færsluna þar á undan, að því er virðist. Annars er þetta sérkennilegt blogg, skoðanirnar stundum svo sérkennilegar að maður veltir því fyrir sér hvort þetta sé bara ísköld hæðni og titillinn minn þ.a.l. grín. En við erum sammála um skipulagsmál að miklu leyti.
•••
Ég mæli með Don Kíkóta, fáránlega skemmtileg lesning og gaman að sjá að skopskyn manna hefur ekki tekið stórfelldum breytingum frá árinu 1606. Hins vegar hefur skáldskapur breyst nokkuð frá því að Aristóteles ritaði Um skáldskaparlistina rúmum 300 árum f. Krist. Ég fékk hugmynd í dag og ég er að hugsa um að framkvæma hana.
Veðrið er ömurlegt, og mér hefur einhverra hluta vegna verið mikið hugsað til jólanna. Í tilefni af því ætla ég að birta örlítið ljóð:

Jólaljóð

Bráðum kemur frosið regnið
og myrkrið marglitast.
Vetrarkyrrðin rofnar
klukkur og kórar.

Húsin verða að piparkökum
og piparkökukallarnir
hlakka til.

Kettirnir koma sér fyrir
í kistunum og
stelpur og strákar
stara:

allir fá eitthvað fallegt
síðan er beðið eftir sumrinu.

Kvöldið er kalkað
en nóttin ný.
Hvít jörðin svört
og hugurinn líka.

Álfarnir brenna ljósin
og skólarnir börnin
en spilin mömmu.

Þó er víst að alltaf verður
ákaflega gaman þá.

:: Atli 23:20 [+] :: ::
...
:: laugardagur, október 09, 2004 ::
„Rannsókn Níelsar Einars Reynissonar...leiðir m.a. í ljós að nærri helmingur alls lands innan borgarinnar, eða 48%, fer undir samgöngukerfi...17% lands [fara] undir umferðargötur, 16% undir innri götur og 15% undir bílastæði. Rannsóknin sýnir að betri nýting er á samgöngukerfinu eftir því sem þéttleiki byggðar er meiri. Níels bendir á að þéttleiki byggðar fari minnkandi í nýrri hverfum borgarinnar og þar séu mun fleiri fermetrar gatnakerfis á hverja íbúðareiningu. 322 fm af samgöngumannvirkjum séu á hverja íbúð í Staðahverfi í Grafarvogi en aðeins 41 fm á hverja íbúð á Grettisgötu. Komst Níels að því að íbúar í þéttum fjölbýlishúsahverfum virðast greiða hlutfallslega meira til gatnagerðar en þeir sem búa í gisnari hverfum.“ (Morgunblaðið, forsíða, 9. okt. 2004; áherslum bætt við)
Er það þetta sem við viljum, að helmingur borgarinnar - sem síðast þegar ég gáði átti að vera handa fólki til þess að búa í, ekki handa bílum til að aka í - fari undir götur og bílastæði? Erum við til í að eyða milljörðum á milljarða ofan í mislæg gatnamót þegar við gætum einfaldlega bara búið öll dálítið nær hvort öðru og komist hjá því að keyra allt sem við þurfum að komast? Ekki nóg með það að úthverfavæðingin skili sér í samfélagslegri úrkynjun heldur er hér líka verið að tala um stórfellda sóun á skattfé og landsvæðum.

:: Atli 13:53 [+] :: ::
...
:: föstudagur, október 08, 2004 ::
Pétur H. Blöndal hefur lagt fram á Alþingi frumvarp þess efnis að forsetaembættið verði lagt af. Í gegnum tíðina hef ég stundum velt því fyrir mér hvaða tilgangi þetta embætti þjóni og hvort skattpeningi okkar væri ekki betur varið til annarra hluta. Hinsvegar er ágætt að Íslendingar geti teflt fram huggulegu fólki (Vigdísi Finnbogadóttur og Ólafi Ragnari Grímssyni) í alþjóðlegu samhengi, því ekki væri það þjóðinni til framdráttar að senda kartöflunef og hroka Davíðs Oddssonar eða fýlusvip og augu fáráðlingsins sem hvíla í kúpu Halldórs Ásgrímssonar í kokkteilboð og opnanir. Auk þess sá ég í sumar hversu mikilvægt embættið er því ekkert annað, að því er virtist, gat bundið enda á valdafyllerí eins manns, nema forseti lýðveldisins. Hann var sá eini sem stóð vörð um lýðræðið - hversu ólýðræðislega sem það kann að hljóma.

Plötur
Herbie Hancock: Maiden Voyage
Sonic Youth: Daydream Nation

:: Atli 15:50 [+] :: ::
...
:: miðvikudagur, október 06, 2004 ::
Ég tel að ég hafi í dag lent í alveg klassísku dæmi um háskóladilemmu. Ég var mættur niður á Bókhlöðu kl. 9 í morgun, en ég átti semsagt að mæta í fyrirlestur kl. 10. Þegar ég mæti í stofuna, er hún tóm, og ég sá eini úr bekknum í augsýn. Ég hugsa með mér að ég hljóti að hafa tekið feil á dögum og sennilega sé ég í hinni stofunni. Svo ég rölti yfir í Árnagarð, en viti menn, í stofu 423 er enginn. Þegar þarna er komið fer ég að efast stórlega um geðheilsu mína, og fullvissa mig um að það sé mánudagur. Ég sé þá enga aðra lausn á þessu máli en að hafa samband við einhvern úr bekknum. Til þess þurfti að ég að komast á Netið og leita uppi símanúmer. Sá fyrsti sem mér datt í hug að hringja í var Sigga Sunna. Hún var búinn að segja mér að númerið sem ég væri með í símanum væri vitlaust svo ég fletti henni upp í nemendaskrá HÍ. Ég hringi í númerið og fæ samband við föður hennar, Reyni. Hann tjáir mér að þetta sé ekki síminn hennar, en er svo góður að gefa mér hann upp. Seinna kemur reyndar í ljós að það var líka rangt númer, svo ég hringi í Mörtu Ess Pétursdóttur. Hún er enn ókomin í skólann en segist ekki vita til þess að tíminn hafi fallið niður. Ég álpast þá inn í Aðalbyggingu og inn á aðalskrifstofu skólans og kem að máli við þrjár konur sem þar sitja. Ég segi þeim (felmtri sleginn) frá aðstöðu minni. Þær hringja nokkur símtöl og tjá mér að endingu að Álfrún Gunnlaugsdóttir, prófessorína sé stödd erlendis. Nújæja, hugsa ég með mér, án þess að minnast þess beinlínis að frú Álfrún hafi sjálf rætt það við bekkinn. Ég fer þá aftur út á Þjóðarbókhlöðu. Þar hitti ég fyrir Gígju Erlingsdóttur (dóttur Erlings Ólafssonar, skordýrafræðings, en hann kemur alltaf í fjölmiðlum á vorin og ræðir um geitunga), en við vorum saman í bjöllukór Bústaðakirkju hérna einu sinni. Hún vakti fyrst athygli mína því hún var á undan mér í röðinni á kaffistofunni og bað um nákvæmlega það sama og ég hafði ætlað að fá mér: kaffbolla og súkkulaðibitaköku. Hún lítur því næst á mig og segir ákveðinni, konklúsívri og magnþrunginni röddu: „Nei, hæ!“ Ég er fljótur að átta mig og við fáum okkur sæti saman. Að samtalinu loknu vorkenndi ég Gígju. Hún virtist mjög hamingjusöm, en á einhverjum allt öðrum forsendum en ég get gefið mér fyrir hamingju. Aumingja stelpan, fædd 1984, er búin að búa með einhverjum viðskiptafræðingi (f. ca. 1975) sem vinnur í Keflavík í u.þ.b. ár (að undangengu lengra sambandi). Þau voru að festa kaup á nýrri íbúð - í nýja hverfinu á Völlunum í Hafnarfirði (álverið í Straumsvík er næsti nágranninn). Mér krossbrá náttúrulega, því ég lít á íbúðabyggingu svona fjarri miðbæ nokkurrar borgar vera mannréttindabrot - og spurði hvort henni þætti ekki dálítið langt að fara í skólann og svona. Og þá náði samtalið botni sínum: „Nei, ég meina við leituðum alveg að íbúðum á Álftanesi og í Kópavogi og Garðabæ og svona.“ Ég læt það vera að fjölskyldufólk búi á þessum stöðum, en fólk sem er tvítugt? Kommon. Svo sagði hún mér frá öllum vinkonum sínum sem fóru til útlanda eftir menntaskóla, „en ég get ekkert farið, ég er náttúrulega bara farin að búa og svona...“. Ég sagði henni að ég hefði bara drifið mig í nám en útilokaði ekkert að taka mér ársleyfi til að gera eitthvað skemmtilegt og skapandi. „Já, einmitt, ég ætla ekki að klára hjúkkuna á fjórum. Aldrei að vita nema ég taki mér ársfrí og eignist krakka eða eitthvað!“ Ég vissi ekki hvort ég átti að hlæja eða gráta.
Ég veit það er ekki fallegt að tala um Gígju svona, og nafngreina hana og hvaðeina, en þetta snýst ekkert um að hún sé vitlaus, eða heimsk, eða leiðinleg, eða neitt svoleiðis - því hún er ekkert af þessu. Gígja er vel gefin stelpa, en við erum sennilega á eins öndverðum meiði og hægt er að vera þegur kemur að lífssýn, hún lifir á einhverju allt öðru plani, í einhverjum allt öðrum heimi en ég og sennilega flestir lesendur þessa bloggs. Og þið hin, sparið þið nafnlausu „vá hvað þú ert geggjað fordómafullur“, „þú ert einn svo hrokafyllsti sem ég hef séð“, „það er frábært að búa í úthverfum, hvað þykist þú vita“, „frekar vildi ég ala barnið mitt upp í Kópavogi en 101 þar sem allt er útí rónum og dópistum“ - kómentin. Þau virka ekki á mig. Auk þess bý ég í Fossvogi. En úthverfamenning (og neysluhyggjan og lífsgæðakapphlaupið og plássfrekjan og bílaeignin og óttinn og allt hitt sem er óneitanlega fylgifiskur slíkrar menningar) er í mínum augum helsti þyrnir metrópólísks nútíma.
Ég nenni ekki að skrifa núna söguna sem þessi færsla átti að fjalla um og afsaka í rauninni innganginn að endanum. Textinn fór að stjórna mér, en ekki öfugt.

Plötur dagsins
Joy Division: Unknown Pleasures
Pavement: Terror Twilight
King Crimson: Starless and Bible Black
Slowblow: Slowblow
Television: Marquee Moon

:: Atli 23:08 [+] :: ::
...
:: mánudagur, október 04, 2004 ::
Birtuskilyrði um klukkan 19 í dag voru einhver þau sérkennilegustu sem ég hef orðið vitni að; bleikur litur yfir jörðinni, himinninn í öllum tónum af bláum sem ég get gert mér í hugarlund, skýin svört að mestu, útlínurnar gylltar hér og þar og eitt bleikt ský sem sveif í austri. Systir mín hafði orð á því að þetta minnti á Vanilla Sky og það er ekki svo fjarri lagi hjá henni. Mömmu fannst þetta óhuggulegt, Pabbi tjáði sig ekki beinlínis um hughrifin sem þetta olli, en mér fannst þetta fyrst og fremst sjarmerandi á einhverju plani sem ég get ekki alveg hent reiður á.
•••
Sl. föstudagskvöld fór ég á Oktoberfest í tjaldi sem hafði verið komið fyrir framan við aðalbyggingu Háskólans. Þar var ótrúlegur glaumur og talsverð gleði, menn brutust út í fjöldasöng á köflum, röðuðu í sig brezel og bradwurst, hömstruðu á barnum og þar fram eftir götunum. Í þessu eina tjaldi voru örugglega eitthvað yfir þúsund manns. Ég fór síðan heim til Svölu - en hún flaug til Kaupmannahafnar eldsnemma á laugardagsmorgninum og snýr aftur um miðjan dag á morgun.
Laugardagskvöldið var svo alveg sérlega skemmtilegt en það hófst á því að við systkinin köstuðum einni ljúffengri Freschettu í ofninn og gæddum okkur síðan á. Gamla settið var í sumarbústað í félagi við vinahjón. Nokkru seinna kom Orri í heimsókn. Við byrjuðum á því að gera grín að því sem var í sjónvarpinu áður en við settum spólu í tækið - og gin í glasið. Spólan var óvenjuleg að því leyti að um var að ræða samansafn af sjónvarpsþáttum þar sem einhver fjölskyldumeðlima birtist og þess vegna mátti sjá skemmtilegar auglýsingar frá síðustu árum, gamla fréttatíma, brot úr myndum sem voru að dagskrárliðunum loknum o.fl. Skrekkur 2000, Fólk m/ Sirrý, fréttir á SkjáEinum (!), umhverfisþátturinn Spírall, Clive Barkers A-Z of Horror... Þá bættust við Kári Finnsson, drukkinn Guðmundur Óskar og akandi Högni. Við yfirgáfum Orra og fórum á stórgóða jazztónleika á Hótel Borg. Að þeim loknum röbbuðum við við Trabant og héldum upp á Kaffibar. Eftir ca. 15-20 mín. í röð hlutum við aðgang og áður en varði var minn dansandi upp á borðum og það allt til lokunar. Hafði lítinn áhuga á því að hætta og fór á Ellefuna. Síðan lokaði þar og þá var ég í vanda staddur. Meiraðsegja Nonni var búinn að loka. Flúði á Stjörnubáta með Högna, sneikaði beikonbát, gekk hérumbil uppað Hlemmi og tók leigubíl. Fór beint í háttinn. Rétt áður en ég sofnaði leit ég á klukkuna, hún var rúmlega sjö að morgni.
•••
Ég er loksins búinn að finna plötusafninu mínu nýjan hýsil. Þið eruð hvött til að kynna ykkur það að nýju; þetta er veraldlegt stolt mitt.

Plata dagsins
M83: Dead Cities, Red Seas & Lost Ghosts

:: Atli 22:37 [+] :: ::
...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?
:: gestir ::
Weblog Commenting by HaloScan.com